Njarðvík tapaði fyrsta leiknum
Njarðvík mætti Íslandsmeisturum KR í átta liða úrslitum Domino´s-deildar karla í kvöld í Frostaskjóli. Liðin voru nokkuð jöfn í fyrri hálfleik og þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 22-24 fyrir Njarðvík, þegar flautað var til hálfleiks stóðu leikar 47-41 fyrir heimamönnum í KR.
KR spýtti í lófana í þriðja leikhluta og sigraði hann nokkuð örugglega en KR skoraði 24 stig á móti 12 stigum Njarðvíkur og staðan 71-53 fyrir KR. Í fjórða leikhluta voru liðin nokkuð jöfn en forskotið sem KR náði í þriðja leikhluta gerði útslagið í leiknum og urðu lokatölur leiksins 89-74 og staðan 1-0 fyrir KR í rimmunni.
Reynsluboltar liðanna, þeir Logi Gunnarsson og Jón Arnór Stefánsson leiddu stigatöfluna fyrir sín lið í kvöld en þeir eru hoknir af reynslu þegar kemur að stóra sviðinu líkt og úrslitakeppnin er.
Næsti leikur liðanna er 19. mars í Ljónagryfjunni og hefst leikurinn kl. 19:15.
Stigahæstu leikmenn Njarðvíkur voru Logi Gunnarsson 16 stig, Terrell Vinson 13 stig og 6 fráköst, Snjólfur Marel Stefánsson 11 stig og5 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 10 stig og 5 fráköst, Kristinn Pálsson 9 stig og 5 fráköst og Maciek Stanislav Baginski 8 stig.
Stigahæstu leikmenn KR voru Jón Arnór Stefánsson 21 stig og 5 fráköst, Kristófer Acox 19 stig og 13 fráköst, Kendall Pollard 17 stig og 5 fráköst, Björn Kristjánsson 12 stig og 5 stoðsendingar, Darri Hilmarsson 9 stig og Pavel Ermolinskij 6 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar.