Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Njarðvík tapaði fyrir nýliðunum en Grindavík og Keflavík halda áfram á sigurbraut
Emilie Hesseldal fór meidd af velli í tapi Njarðvikinga í gær, við það var stórt skarð hoggið í heimaliðið. Myndir úr safni VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 26. október 2023 kl. 09:39

Njarðvík tapaði fyrir nýliðunum en Grindavík og Keflavík halda áfram á sigurbraut

Njarðvíkingar mættu Stjörnunni í Subway-deild kvenna í körfuknattleik í gær og þurfti framlengingu til að knýja fram úrslit. Það voru gestirnir sem höfðu betur í framlengingunni og hömpuðu sigri að lokum. Í fyrrakvöld unnu Grindvíkingar Hauka á Ásvöllum og þær hafa nú unnið fimm leiki af sex í deildinni. Keflavík tók á móti Snæfelli á mánudag og vann sjötta leikinn í röð.

Njarðvík - Stjarnan 81:87

Tynice Martin var með 21 stig í gær.

Leikurinn var hnífjafn í upphafi en þegar tók að líða á fyrsta leikhluta sigu gestirnir aðeins fram úr og leiddu með fimm stigum fyrir annan leikhluta (22:27).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar sóttu í sig veðrið í öðrum leikhluta og minnkuðu muninn í tvö stig þegar leihlutinn var rúmlega hálfnaður (35:37). Stjörnukonur bættu þá í og gerðu tíu stig gegn tveimur heimakvenna og höfðu náð fyrri mun og einu stigi betur í hálfleik (37:45).

Njarðvík byrjaði seinni hálfleik af krafti og skoruðu ellefu stig án þess að Stjarnan næði að svara (48:45). Gestirnir létu það þó ekki buga sig og hófu gagnsókn. Þriðji leikhluti var jafna eftir það en þegar honum lauk voru heimakonur komnar í fjögurra stiga forystu (60:56).

Þegar skammt var til leiksloka var allt jafnt (70:70) en Hulda María Agnarsdóttir breytti stöðunni með þristi og staðan 73:70. Stjarnan minnkaði muninn í eitt stig en Eno Viso svaraði að bragði og Njarðvík í góðri stöðu með hálfa mínútu á klukkunni.

Lokaandartökin nýttu Stjörnukonur vel, þær fengu vítaskot og skoruðu úr því fyrra en misnotuðu seinna skotið. Stjarnan náði frákastinu og hélt sókninni áfram sem endaði á að Hulda María braut á leikmanni Stjörnunnar í þriggja stiga tilraun og gestirnir fengu því þrjú vítaköst í lokin. Þær skoruðu úr tveimur fyrstu en mistókst að nýta það þriðja og venjulegur leiktími rann út í stöðunni 75:75.

Gestirnir reyndust sterkari í framlengingunni og lönduðu því sigri 81:87. Þetta var annað tap Njarðvíkur á tímabilinu.

Haukar - Grindavík 71:84

Fimm stig í röð hjá Heklu Eik í fjórða leikhluta gerði út um vonir Haukanna.

Grindvíkingar halda áfram á sinni sigurbraut en liðið gerði vel gegn Haukum á þriðjudag og vann góðan þrettán stiga sigur.

Grindavík hafði níu stiga forskot í hálfleik (38:47) og litu ekki til baka eftir það. Haukar minnkuðu muninn í fjögur stig í fjórða leihluta (60:64) en þá setti Hekla Eik Nökkvadóttir niður tvist og þrist sem Ólöf Óladóttir fylgdi eftir með þristi og breytti stöðunni í 60:72. Þessu náðu Haukarnir ekki að svara og Grindavík fagnaði fimmta sigrinum í ár.

Keflavík - Snæfell 76:65

Stórskyttan Thelma Dís Ágústsdóttir var stigahæst Keflvíkinga með sautján stig.

Leikur Keflavíkur og Snæfells var kaflaskiptur. Gestirnir komust í fjórtán stiga forystu í öðrum leikhluta (22:36) og leiddu með sex stigum í hálfleik (35:41).

Keflavík náði sér á strik í seinni hálfleik og voru fljótlega búnar að jafna (45:45). Þær sigur svo fram úr gestunum en Snæfell náði forystu á nýjan leik þegar skammt var til loka þriðja leikhluta þegar þær settu niður þrist (52:53) en Thelma Ágústsdóttir svaraði í sömu mynt og Keflavík hafði tveggja stiga forystu fyrir síðasta leikhlutann (55:53).

Keflvíkingar nýttu sér meðbyrinn og gerðu 21 stig gegn tólf stigum gestanna í fjórða leikhluta og höfðu að lokum ellefu stiga sigur (76:65).

Keflavík er ennþá með fullt hús stiga og vermir toppinn.