Njarðvík tapaði botnslagnum
Njarðvík tók á móti Snæfelli í Domino´s-deild kvenna í körfu í kvöld og tapaði naumlega með þremur stigum, lokatölur leiksins urðu 70-73. Bæði liðin sitja á botni deildarinnar en Njarðvík er í áttunda og jafnframt neðsta sæti með núll stig eftir átján umferðir.
Liðin voru nokkuð jöfn í leiknum og var Njarðvík yfir í hálfleik 38-33, Njarðvík hélt forystunni í upphafi seinni hálfleiks en Snæfell gaf í þegar leið á seinni hálfleikinn og þurfti að framlengja leiknum en þegar fjórða leikhluta lauk var staðan 61-61. Úrslit leiksins réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum en þá tryggði Snæfell sigurinn.
Stigahæstu leikmenn Njarðvíkur voru Shalonda R. Winton með 27 stig, 18 fráköst og 9 stoðsendingar, Björk Gunnarsdóttir með 11 stig, 7 fráköst og 3 varin skot, Ína María Einarsdóttir með 11 stig, Hulda Bergsteinsdóttir með 7 stig, María Jónsdóttir með 6 stig og 13 fráköst og Hrund Skúladóttir með 5 stig.