Njarðvík steinlá fyrir baráttuglöðum Stólum
Það er óhætt að segja að Njarðvíkingar hafi ekki verið tilbúnir í slaginn þegar Tindastóll valtaði yfir þá í fyrsta leik undanúrslita Subway-deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Yfirburðir gestanna voru ótrúlega miklir og þeir réðu lögum og lofum allan leikinn. Rúmlega þrjátíu stiga tap og Njarðvíkingar þurfa heldur betur að girða sig í brók fyrir næsta leik. Lokatölur 52:85.
Njarðvíkingar náðu aldrei að sýna sitt rétt andlit í kvöld og gestirnir gengu á lagið. Þeir tóku forystu í byrjun og gáfu hana aldrei eftir, mestur varð munurinn 38 stig (47:85).
Á meðan ekkert gekk upp hjá heimamönnum virtust öll skot gestanna rata í körfuna og þá var varnarleikur þeirra massívur og Njarðvíkingar áttu ekkert svar á reiðum höndum og sóknir þeirra runnu ítrekað út í sandinn.
„Þetta var óvirðing við fólkið okkar sem fyllir Gryfjuna og við byrjum aldrei leikinn,“ sagði Logi Gunnarsson sem var skiljanlega mjög ósáttur við frammistöðu liðsins í kvöld. „Þetta er mikið vandamál sem við þurfum að skoða en við höfum tvo daga til þess og það er bara áfram gakk.“
Enginn leikmanna Njarðvíkur var nálægt sínu besta og til dæmis um það var Mario Matasovic framlagshæstur þeirra með einungis tólf framlagspunkta – sex af leikmönnum Stólanna skoruðu betur en það.
Liðin mætast að nýju á sunnudag fyrir norðan og vonandi sýna njarðvísku ljónin þá hvað í þeim býr.
Njarðvík - Tindastóll 52:85
(14:32, 11:18, 13:18, 14:17)
Njarðvík: Dedrick Deon Basile 14, Lisandro Rasio 10/4 fráköst, Mario Matasovic 9/7 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 6, Haukur Helgi Pálsson 6/5 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 4/4 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 3/4 fráköst, Nicolas Richotti 0, Jan Baginski 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Logi Gunnarsson 0, Jose Ignacio Martin Monzon 0/6 fráköst.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og má sjá fleiri myndir frá leiknum í myndasafni neðst á síðunni auk viðtals við Loga Gunnarsson.