Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík sigraði í nágrannaslag
Maciek Baginski fagnar körfu sem hann skoraði á sama tíma og brotið var á honum.
Mánudagur 6. nóvember 2017 kl. 21:23

Njarðvík sigraði í nágrannaslag

-Komið í 8 liða úrslit Maltbikarsins

Njarðvík tók á móti Grindavík í 16 liða úrslitum Maltbikarsins í kvöld og fór leikurinn fram í Ljónagryfjunni. Um sannkallaðan nágrannaslag var að ræða og ætluðu bæði lið sér sigur í leiknum. Lokatölur leiksins voru 79-75 með sigri Njarðvíkinga.

Njarðvík mætti í leikinn af krafti og í fyrri hálfleik voru Njarðvíkingar komnir í 7 stiga forskot gegn engu stigi Grindavíkur þegar aðeins nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum. Grindavík náði sér síðan á strik í leikhlutanum, átti góða spretti og að honum loknum var staðan 26-24 fyrir Njarðvík. Í öðrum leikhluta skoraði Ólafur Ólafsson 8 stig á fyrstu einu og hálfu mínútu leikhlutans og kom Grindavík yfir. Í hálfleik var staðan 38-41 fyrir Grindavík og en bæði lið áttu þónokkur skot á körfuna sem rötuðu ekki ofan í hana.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í seinni hálfleik og þriðja leikhluta mættu bæði liðin inn í leikinn af krafti en það var greinilegt að enginn ætlaði heim með ósigur eftir leikinn. Ragnar Nathanaelsson lenti í villuvandræðum í leikhlutanum, fékk sína fjórðu villu og hvíldi á bekknum eftir hana. Grindavík náði sér ekki á strik í leikhlutanum eftir kraftmikla byrjun og var staðan í þriðja leikhluta 60- 54 fyrir Njarðvík.

Bæði lið mættu ákveðin í fjórða leikhluta líkt og í þeim þriðja, Grindavík byrjaði vel og saxaði á forskot Njarðvíkinga en leikhlutinn var æsispennandi og sýndu bæði lið hörkubaráttu. Grindavík náði ekki að nýta færin sín og voru Njarðvíkingar ákveðnari í stigaskorinu og voru komnir í tíu stiga mun þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Rashad Whack fékk sína fjórðu villu þegar fjórar og hálf mínúta voru liðnar af leikhlutanum, Grindvíkingar voru í töluverðum villuvandræðum í þessum leikhluta og Þorsteinn Finnbogason fékk sína fjórðu villu þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum.

Þegar tvær mínútur voru eftir var þriggja stiga munur á liðunum 75-72 en Rashad Whack jafnaði þá leikinn þegar rétt rúmlega ein og hálf mínúta var eftir og staðan 75-75. Ragnar Nathanaelsson skoraði þá úr tveimur vítum og kom Njarðvík yfir, Ragnar varði einnig sókn frá Sigurði Þorsteinssyni þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum og hélt Njarðvík í forystu. Þegar fjórtán sekúndur voru eftir af  átti Grindavík sókn sem þeir náðu ekki að nýta og endaði leikurinn með sigri Njarðvíkinga eftir að Logi Gunnarsson skoraði úr tveimur vítum eftir að aðeins tvær sekúndur voru eftir af leiknum.

Stigahæstu leikmenn Njarðvíkur voru Terrell Vinson með 25 stig og 8 fráköst,  Maciek Stanislav Baginski með 17 stig og 4 fráköst og Logi Gunnarsson með 16 stig og 4 fráköst.

Stigahæstu leikmenn Grindavíkur voru Ólafur Ólafsson með 21 stig og 10 fráköst, Dagur Kár Jónsson með 17 stig, 5 fráköst, 9 stoðsendingar og 5 stolna bolta og Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 16 stig og 4 fráköst.

Dregið verður í átta liða úrslitum Maltbikarsins í hádeginu á morgun.