Njarðvík og Snæfell í úrslit
Njarðvík og Snæfell komust í kvöld í úrslit Hópbílabikarsins með sigrum á Keflavík og Grindavík í undanúrslitum. Leikirnir fóru fram í Laugardalshöll.
Snæfell lagði Grindavík, 82-75, í fyrri leik kvöldsins.
Snæfellingar mættu sjóðheitir til leiks og og völtuðu yfir Grindvíkinga á upphafsmínútunum og skoruðu fyrstu 10 stigin. Grindvíkingar skoruðu ekki eina körfu fyrstu 4 mínúturnar en þá breytti Þorleifur Ólafsson, sem átti skínandi leik, stöðunni í 10-3. Allan fyrsta fjórðunginn hélst munurinn um tíu stig þar sem Gindvíkingum gekk bölvanlega í sóknarleik sínum og var mikið um léleg skot og margir boltar sem fóru í hendur Snæfellinga að óþörfu.
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 21-13 og voru Þorleifur og Darrrel Lewis þeir einu sem voru komnir á blað hjá Grindavík.
Vandræðagangur var enn á leik þeirra Grindvíkinga fram að hálfleik, en Þorleifur hélt sínum mönnum á floti. Kristinn Friðriksson kom inná þegar munurinn var 14 stig og setti 5 stig á stuttum tíma. Munurinn var mestur 17 stig þegar skammt var til leiksloka, en Þorleifur, hver annar, hitti úr einni þriggja stiga körfu áður en flautan gall, staðan í hálfleik, 49-35.
Lykilmenn í Grindavík voru langt frá sínu besta í fyrri hálfleik og var Lewis einungis með sex stig og Páll Axel með tvö úr vítum, en Páll hitti ekki úr einu einasta skoti utan af velli í öllum leiknum.
Í þriðja leikhluta fóru Grindvíkingar loks að láta finna fyrir sér og minnkuðu muninn smám saman. Lewis lét loks á sér kræla og Þorleifur hélt sínu striki. Hann nýtti skot sín í leiknum afbragðsvel og hitti m.a. úr 4 af 5 3ja stiga skotum sínum og 6 af 7 fyrir innan línuna.
Staðan þegar liðin héldu inn í síðasta fjórðunginn var 65-59, en breyttist skjótt í 68-59 með körfum frá Desmond Peoples og Pierre Green. Þá tók við 13-5 kafli hjá Grindavík sem minnkaði muninn niður í eitt stig, 73-72. Þegar 40 sekúndur voru eftir af leiknum breytti Guðlaugur Eyjólfsson stöðunni í 76-75 og allt stefndi í spennandi lokakafla.
Röð mistaka kom þó í veg fyrir að Grindvíkingar minnkuðu muninn frekar og Hlynur Bæringsson og Sigðurur Þorvaldsson skoruðu sex síðustu stig leiksins úr vítaskotum, lokatölur 82-75.
„Við komum hingað til að sigra og fara alla leið,“ sagði Pétur Guðmundsson, reynsluboltinn í liði Grindavíkur í leikslok. „Með það varnarkerfi sem við lögðum upp með í byrjun gerðum við ráð fyrir því að þeir næðu nokkrum skotum en bjuggumst ekki við þvíað þeir myndu hitta svona vel. Svo í lok leiks var eitthvað einbeitingarleysi þannig að í staðiinn fyrir að nýta möguleikann til að vinna leikinn klúðruðum við boltanum. Þetta er bara eitthvað sem gerist, en við verðum bara að taka það góða í dag og nota það í næsta leik og reyna að gleyma því slæma.“
Keflavík Njarðvík
Njarðvík sigraði erkifjendurna í Keflavík, 78-84, í seinni undanúrslitaleiknum.
Keflvíkingar höfðu kvöldið áður tapað gegn Bakken Bears í Evrópukeppninni og tefldu því ekki fram sínu sterkasta liði í byrjun.
Njarðvíkingar höfðu frumkvæðið framan af og leiddu með 4-6 stigum lengst af. Þó var mikið um mistök hjá báðum liðum á upphafsmínútunum. Anthony Glover fór mikinn undir körfunni og skoraði 14 af 16 stigum Keflavíkur á móti 18 stigum Njarðvíkinga.
Athygli vakti að dómarar leiksins, Rögnmvaldur Hreiðarsson og Einar Þór Skarphéðinsson, dæmdu ekki eina villu á Njarðvík í fjórðungnum á móti fimm villum sem dæmdar voru á Keflavík. Keflvíkingar voru ekki sáttir og átti enn eftir að reyna á þolinmæði þeirra áður en yfir lauk.
Í öðrum leikhluta náðu Keflvíkingar að rétta sinn hlut þar sem Arnar Freyr Jónsson kom ferskur inn af bekknum. Líf færðist í sóknarleikinn á meðan Njarðvíkingum gekk illa að klára færin.
Keflavík náði 5 stiga forystu, 27-22, eftir fjögurra mínútna leik og héldu þeim mun meira eða minna allt fram að hálfleik, en Anthony Lackey breytti stöðunni í 41-39 rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.
Dómararnir voru enn í eldlínunni í fjórðungnum þar sem nokkrar tafir urðu á leiknum vegna þess að þeir kröfðust þess að gjallarhorn sem stuðningsmenn Keflavíkur voru með væri gert upptækt. Olli þetta nokkrum úlfaþyt og var ekki til að bæta álit Keflvíkinga á dómurunum.
Keflavík virtist hafa yfirhöndina í leiknum þegar liðin héldu inn í hálfleik, og voru Gunnar Einarsson og Magnús Gunnarsson ekki einu sinni komnir inná í leiknum.
Leikurinn var í járnum í 3. leikhluta þar sem liðin skiptust á að leiða allt að til Njarðvíkingar náðu góðum spretti undir lokin. Þeir náðu 6 stiga forskoti, 55-61, áður en Magnús Gunnarsson, sem hafði ekki alveg fundið sig fram að því, hitti úr 3ja stiga skoti í þann mund er lokagjallið heyrðist.
Í þessum leikhluta gerðist það aftur að Njarðvíkingar sluppu án þess að fá dæmda á sig villu.
Í upphafi fjórða leikhluta setti Magnús aðra 3ja stiga körfu og jafnaði metin. Keflvíkingar náðu svo forskoti sem Guðmundur Jónsson jafnaði með 3ja siga körfu.
Staðan var jöfn þegar leikhlutinn var hálfnaður en þá náðu Njarðvíkingar undirtökunum. Þeir skoruðu 9 stig í röð og leiddu 68-77 þegar tæpar 3 mínútur voru til leiksloka. Keflavík náði ekki að vinna á því og þegar Halldór Karlsson, fyriliði Njarðvíkur breytti stöðunni í 71-80 með þriggja stiga skoti þyngdist róðurinn all verulega. Allar vonir voru hins vegar úti með þriggja stiga körfu frá Matt Sayman á síðustu mínútunni og Njarðvíkingar fögnuðu sigri á Keflvíkingum í annað sinn síðan í haust.
Gremjan leyndi sér ekki er Keflvíkingar gengu hníptir að velli og þótti þeim verulega halla á dómgæsluna. Falur Harðarson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, sagði að erfitt hefði verið að vinna þennan leik þar sem þeir hefðu ekki leikið á sama grundvelli og Njarðvíkingar. Þetta var bara skrípaleikur. Þeir dæmdu ekki villu á Njarðvík í tvo heila leikhluta. Lið eins og Njarðvík þarf enga forgjöf á okkur. Falur taldi að þrátt fyrir að hittni þeirrra manna hafi oft verið betri hai þeir ekki verið lakari aðilinn í leiknum.
Einar Árni, þjálfari Njarðvíkur, tók að vissu leyti undir gagnrýnisraddir varðandi dómgæsluna og sagðist ekki sáttur við allar þeirra ákvarðanir, en það hafi ekki ráðið úrslitum.
„Við vorum ekki að spila neinn glæsibolta og okkur vantaði smá neista í upphafi leiks en hann kom undir lokin. Menn lögðu mikið á sig og Dóri kom með heljarinnar innkomu í restina, þannig að þetta var mjög ljúft.“
Njarðvík keppir á morgun við Snæfell í úrslitum Hópbílabikarsins og hefst viðureignin í Laugardalshöll kl. 16. Þar áður mætast kvennalið Keflavíkur og Grindavíkur í undanúrslitum kvenna og hefst sá leikur kl 14. Eru áhugasamir hvattir til að mæta í Höllina og styðja við bakið á sínu fólki.