Njarðvík og Reynir með sigra
Njarðvíkingar halda fast í toppsæti 2. deildar í knattspyrnu en þeir lögðu ÍR 1-0 á Njarðvíkurvelli í gærkvöldi. Mark Njarðvíkinga gerði Rafn Markús Vilbergsson á 11. mínútu leiksins.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu beggja liða en fleiri urðu mörkin ekki og sitja Njarðvíkingar sem fyrr á toppi deildarinnar og nú með 24 stig. Bera þurfti miðjumanninn Bjarna Sæmundsson af leikvelli en meiðsl hans eru ekki talin alvarleg og hann ætti því að vera klár í næsta leik Njarðvíkinga gegn KS/Leiftri þann 22. júlí.
Sandgerðingar gerðu góða ferð í Mosfellsbæ í gær og lögðu Aftureldingu 4-1 og komust þar með í 3. sæti deildarinnar. Reynismenn eru nú með 19 stig og virðast hafa fundið broddinn að nýju í sóknarleik sínum.
Hafsteinn Friðriksson kom Reyni í 1-0 með vítaspyrnu á 22. mínútu og staðan varð 2-0 þegar heimamenn gerðu sjálfsmark á 45. mínútu. Hafsteinn bætti svo við sínu öðru marki á 66. mínútu en fjórða og síðasta mark Sandgerðinga gerði Guðmundur G. Gunnarsson á 85. mínútu leiksins.
VF-myndir/ [email protected]