Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík og ÍBV skildu jöfn í Reykjaneshöllinni
Miðvikudagur 17. september 2008 kl. 12:26

Njarðvík og ÍBV skildu jöfn í Reykjaneshöllinni

Njarðvík og ÍBV skildu jöfn, 2-2, í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikurinn var færður inn í Reykjaneshöllina vegna slæms veðurs. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur en þessi leikur skipti ekki nokkru máli fyrir bæði lið. Njarðvík var nú þegar fallið úr 1. deild karla, en ÍBV var búið að tryggja sér titilinn í 1. deildinni.



Bæði lið gátu því leyft sér að setja aukin kraft í sóknarleikinn. Njarðvíkingar komust yfir á 28. mínútu með marki Kristins Agnarssonar, en hann var réttur maður á réttum stað eftir vel útfærða sókn hjá heimamönnum. Það tók gestina aðeins tvær mínútur að jafna leikinn og var Atli Heimisson þar að verki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024




Njarðvíkingar voru hins vegar ekki að baki dottnir og aðeins þremur mínútum síðar voru þeir komnir aftur yfir. Markaskorarinn, Kristinn Agnarsson, fiskaði þá vítaspyrnu sem Aron Smárason skoraði úr. Staðan í hálfleik var því 2-1 fyrir heimamenn.



Eyjamenn jöfnuðu leikinn á 77. mínútu þegar Anton Bjarnason skoraði gott mark. Augnabliks einbeitarinarleysi í vörn Njarðvíkinga kostaði mark og reyndist það vera lokamark leiksins.



ÍBV er með 50 stig á toppi deildarinnar þegar einum leik er ólokið. Njarðvíkingar eru hins vegar með 16 stig í 11. sæti deildarinnar og leikur í 2. deildinni að ári.


VF-MYND/Gummi Rúnar: Njarðvíkingar gerðu jafntefli við ÍBV í gærkvöldi.