Njarðvík og Grindavík í undanúrslit og Grindavík í kvennaflokki
Njarðvík og Grindavík komust í dag í undanúrslit í Powerade bikarnum í körfu í karlaflokki og í kvennaflokki komst Grindavík áfram eftir sigur á Keflavík. Karlalið UMFN vann Keflavík og Grindavík vann ÍR. Báðir leikirnir voru hörku spenanndi.
Keflavík byrjaði betur í leiknum og náði Grindavík forystunni aðeins einu sinni í fyrri hálfleik. En í þeim seinni hrökk allt í baklás hjá þeim hvítklæddu og þær skoruðu aðeins 11 stig í seinni hálfleik gegn 27 stigum Grindavíkurstúlkna.
Íris Sverrisdóttir var stigahæst Grindavíkurstúlkna með 14 stig en hja Keflavík var Birna Valgarðsdóttir allt í öllu og skoraði 24 stig og tók 7 fráköst.
Í karlaleiknum í Keflavík í kvöld mættu nágrannarnir úr Njarðvík sem hafa endurheimt marga Njarðvíkinga til baka og ættu að verða í baráttunni í vetur um titla. Keflvíkingar með nýjan þjálfara, Guðjón Skúlason léku vel en þeir grænklæddu náðu að innbyrða sigurinn í lokin. Lokatölur 76-79. Liðin skiptust sjö sinnum á forystunni og húnvarð aldrei meiri en 9 stig. Hafði Njarðvík sigur að lokum 79-76. Magnús Þór Gunnarsson og Jóhann Árni Ólafsson skoruðu 17 stig hvor fyrir Njarðvík en fyrir Keflavík skoraði Sigurður Þorsteinsson 20 stig auk þess að taka 11 fráköst.
Undanúrslitin fara fram á miðvikudag en þá tekur KR á móti Njarðvík og Grindavík á móti Snæfell.
Hart barist í vörn Keflavíkur.
Davíð Jónsson á fullu með boltann í kvöld.
Friðrik undir körfunni hjáKeflavík, Sigurður, Þröstur og Hörður fylgjast með. VF-myndir/Páll Orri.