Njarðvík og Dalvík/Reynir skildu jöfn
Njarðvíkingar töpuðu fyrstu stigum sínum í 2. deild karla þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Dalvík/Reynir á Njarðtaksvellinum í Njarðvík í dag.
Öll mörk leiksins voru skoruðu í fyrri hálfleik og komust Njarðvíkingar yfir í tvígang en elgseigir norðanmenn neituðu að gefast upp og jöfnuðu um hæl.
Theódór Guðni Halldórsson kom Njarðvík yfir á 23. mínútu áður en Eggert Steinþórsson jafnaði fyrir Dalvík/Reyni á 30. mínútu. Arnór Svansson kom Njarðvíkingum svo aftur yfir aðeins mínútu síðar en gestirnir jöfnuðu á lokasekúndum fyrri hálfleiks með marki frá Gunnari Má Magnússyni.
Ekkert mark var skorað í seinni hálfleiknum og sættust liðin því á jafntefli. Njarðvík, sem hafði unnið báða leiki sína í deildinni fram að leiknum í dag, tapaði þar með sínum fyrstu stigum á meðan Dalvík/Reynir náði í sitt fyrsta stig og skoraði sín fyrstu mörk í deildinni.
Njarðvík dettur fyrir vikið niður í 4. sæti deildarinnar úr því 1. en þrjú lið hafa unnið alla sína leiki hingað til og stefnir í mjög jafna og spennandi deild ef draga má ályktanir útfrá fyrstu þremur umferðum mótsins.
Næsti leikur Njarðvíkinga verður gegn Aftureldingu föstudaginn 29. maí á Njarðtaksvellinum í Njarðvík.