Njarðvík með tap gegn Val í Lengjubikarnum
Njarðvík mætti Íslandsmeisturum Vals í Lengjubikarnum í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikurinn fór fram á Valsvelli og voru aðstæður svalar og blautar en veðrið milt. Valur fór með sigur af hólmi í leiknum og voru lokatölur leiksins 3-0. Atli Rafn, þjálfari sagði eftir leikinn;
Við lögðum leikinn upp með að vera þéttir og vel skipulagðir. Það gekk upp fram á 70. mínútu þegar Valsmenn sem stilltu upp sterku liði í kvöld náðu að skora. Þetta var fyrsti leikurinn okkar fyrir utan Reykjaneshöllina og stóðu strákarnir sig vel við ólíkar aðstæður en við eigum að venjast í Reykjaneshöllinni.Með smá heppni í kvöld hefðum við getað skorað, bæði komist yfir eftir gott færi frá Neil eða jafnað þegar bjargað var á línu frá Birki. Klárlega leikur sem hætt er að byggja á.
Njarðvík mætir ÍA í Reykjaneshöllinni nk. fimmtudagskvöld kl. 18:40 í Lengjubikarnum.