Njarðvík með góðan sigur á Króknum
Njarðvíkingar unnu Tindastól í stórskemmtilegum leik á Sauðárkróki í gær. Með sigrinum halda þeir efsta sæti Subway-deildarinnar en Þór Þorlákshöfn er jafnt Njarðvík að stigum. Tveimur stigum á eftir toppliðunum eru Keflvíkingar en eiga leik til góða á bæði Njarðvík og Þór. Keflvíkingar geta jafnað toppliðin að stigum í kvöld þegar þeir fara til Þorlákshafnar.
Tindastóll - Njarðvík 84:96
(20:22, 16:22, 24:20, 24:32)
Eftir jafnan fyrsta leikhluta höfðu Njarðvíkingar tveggja stiga forystu (20:22) en þeir juku muninn í átta stig (36:44) með góðum leik í öðrum leikhluta. Heimamenn söxuðu á forskotið þegar þeir mættu ákveðnir til leiks í seinni hálfleik og höfðu minnkað muninn í fjögur stig fyrir lokaleikhlutann (60:64).
Stólarnir náðu að jafna leikinn snemma í fjórða leikhluta og komast einu stigi yfir (70:69 og 73:71) en lengra hleyptu Njarðvíkingar þeim ekki og gáfu í á síðustu mínútunum. Í stöðunni 73:73 setti Haukur Helgi Pálsson niður þrist og þeir Nicolas Richotti og Logi Gunnarsson bættu tveimur þristum við áður en leikurinn var úti sem slökkti allar vonir heimamanna. Tólf stiga mikilvægur sigur í höfn hjá Njarðvík.
Frammistaða Njarðvíkinga: Dedrick Deon Basile 20/7 fráköst/10 stoðsendingar, Fotios Lampropoulos 17/9 fráköst, Logi Gunnarsson 16, Haukur Helgi Pálsson 15, Mario Matasovic 13/4 fráköst, Maciek Stanislav Baginski 7, Nicolas Richotti 6/5 fráköst/8 stoðsendingar, Veigar Páll Alexandersson 2, Bergvin Einir Stefánsson 0, Elías Bjarki Pálsson 0, Rafn Edgar Sigmarsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 0.