Njarðvík með baráttusigur gegn Haukum
-Logi með frábæran leik
Njarðvík unnu flottan sigur á Haukum í Dominos deild karla í kvöld, 98-88. Logi Gunnarsson og Stefan Bonneau voru frábærir í liði Njarðvíkinga, Logi leiddi sóknarleik liðsins í gegnum leikinn og skoraði 34 stig og Bonneau setti körfur á mikilvægum tímapunktum en hann endaði með 27 stig.
Leikurinn var í járnum allan tímann og skiptust liðin á að koma með áhlaup. Stefan Bonneau setti niður risastóran þrist þegar innan við mínúta var eftir af leiktímanum sem kom Njarðvík í sex stiga forskot, 94-88, og gerði út um leikinn.
Jeremy Atkinson spilaði sinn fyrsta leik með Njarðvík á þessu tímabili og kom með baráttu með sér inn í liðið. Hann skoraði 11 stig og tók 5 fráköst. Logi Gunnarsson skoraði eins og fyrr segir 34 stig og var auk þess með 3 stoðsendingar. Stefan Bonneau var með 27 stig og 4 stoðsendingar.
Hjá Haukum var Sherrod Wright með 33 stig og 9 fráköst og Emil Barja skoraði 19 stig og tók 5 fráköst. Haukar tóku samtals 43 fráköst gegn aðeins 28 hjá Njarðvíkurliðinu.