Njarðvík-Keflavík: Stórleikur í Ljónagryfjunni í kvöld
Það verður sannkallaður stórleikur í Toyota-höllinni í kvöld þegar Njarðvík og Keflavík mætast í Dominos-deild karla. Liðin hafa verið á fínu róli að undanförnu. Njarðvíkingar mæta fullir sjálfstrausti til leiks en liðið hefur unnið fimm leiki í röð í deildinni. Njarðvík er 6. sæti deildarinnar með 22 stig.
Keflvíkingar eru í 5. sæti deildarinnar með 26 stig og eiga möguleika á þriðja sætinu í deildinni. Sigur í kvöld er forsenda fyrir því takmarki. Langt er síðan bæði lið hafa verið svona heit á sama tíma en Keflavík hefur unnið 8 af 10 síðustu leikjum sínum. Búast má því við hörkuleik í kvöld.
Njarðvíkingar bjóða stuðningsmönnum sínum að mæta fyrir leik í félagsheimili sínu (Boganum) til að hitta og hlíða á þjálfara liðsins, Einar Árna Jóhannsson, til að fara yfir leik kvöldsins. Hann mun jafnframt svara spurningum. Í boði á staðnum verða léttar veitingar ásamt einhverjum dropum til að skola því niður. Herlegheitin hefjast kl 18:45 fyrir alla stuðningsmenn UMFN.
Leikurinn sjálfur hefst kl. 19:15 í Ljónagryfjunni í Njarðvík og ættu allir áhugamenn um körfuknattleik í Reykjanesbæ að fjölmenna á leikinn.