Njarðvík Íslandsmeistari í 11. flokki karla
Njarðvíkingar eru Íslandsmeistarar í 11. flokki karla eftir öruggan 61-80 sigur á Breiðablik í úrslitaviðureign liðanna sem fram fór í Smáranum í Kópavogi. Valur Orri Valsson var valinn besti maður leiksins með 23 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar. Þetta var í fyrsta sinn sem þessi árgangur í Njarðvík verður Íslandsmeistari en þessi árgangur Blika hafði þrívegis áður hampað þeim stóra.
Frábær mæting var á leikinn í Kópavogi og lauslega áætlað hafa verið hátt í 300 manns sem studdu liðin áfram. Þá var leikurinn einnig í beinni netútsendingu hjá KR TV og í beinni tölfræðilýsingu hjá KKÍ.
Heimamenn í Breiðablik mættu vel stemmdir til leiks og komust í 6-0 áður en Sigurður Dagur Sturluson kom Njarðvíkingum á blað. Blikar pressuðu eftir skoraðar körfur og enduðu í svæðisvörn en léku þess á milli maður á mann vörn og Njarðvíkingar voru smá stund að ná taktinum upp í sínum leik.
Snorri Hrafnkelsson var illviðráðanlegur í liði Blika og tók heil 8 fráköst í fyrsta leikhluta en Njarðvíkingar spýttu í lófana og náðu að jafna metin í 11-11 og komust svo í 14-19 áður en Ægir Bjarnason minnkaði muninn í 17-19 með þriggja stiga körfu og svo áttu Blikar einnig lokaorðið og staðan því 19-19 eftir jafnan og skemmtilegan fyrsta leikhluta.
Elvar Friðriksson opanaði annan leikhluta fyrir Njarðvíkinga með þriggja stiga körfu en Þórir Sigvaldason svaraði í sömu mynt fyrir Blika og staðan því 22-22. Í upphafi annars leikhluta fékk Ágúst Orrason sína þriðju villu í liði Blika og hélt á bekkinn og lék ekki meir í fyrri hálfleik. Njarðvíkingar skiptu síðan yfir í box-1 vörn þar sem Ægir Bjarnason var tekinn úr umferð í liði Blika og skömmu síðar hrökk Valur Orri Valsson í gang.
Með þremur þristum í röð breytti Valur Orri stöðunni í 30-39 Njarðvíkingum í vil en kappinn gerði 11 stig á þessum kafla sínum og héldu Njarðvíkingar inn í leikhlé með forystuna 30-42. Blikar náðu ekki að svara nægilega vel box-1 vörn Njarðvíkinga þar sem Ægir Bjarnason var í gjörgæslu sem og Ágúst Orrason utan vallar sökum villuvandræða.
Snorri Hrafnkelsson var með 9 stig og 11 fráköst í liði Blika í hálfleik en atkvæðamestur í liði Njarðvíkinga var Valur Orri Valsson með 15 stig.
Snemma í síðari hálfleik náði Ægir Bjarnason að minnka muninn í 39-46 er hann skoraði og fékk víti að auki fyrir Blika. Um leið og heimamenn virtust vera að taka við sér fékk Ágúst Orrason sína fjórðu villu og hélt á tréverkið hjá Blikum, dýr villa þar sem Ágúst er einn af burðarásum liðsins. Snorri Hrafnkelsson fékk skömmu síðar sína fjórðu villu hjá Breiðablik og Njarðvíkingar gengu á lagið. Á lokasprettinum hrellti Elvar Friðriksson heimamenn í Breiðablik með tveimur þristum og Maciej Baginski gerði teigkörfu fyrir Njarðvíkinga þegar 5 sekúndur voru eftir af leikhlutanum og Njarðvíkingar leiddu 41-58 fyrir lokasprettinn og ljóst að róðurinn yrði þungur hjá Breiðablik.
Ágúst Orrason mætti með þrist í upphafi fjórða leikhluta og ljóst að síðustu fimm mínútur á bekk Blika höfðu ekkert kælt kappann, staðan 46-58 og Blikar með 5 fyrstu stig leikhlutans áður en Njarðvíkingar skoruðu.
Snorri Hrafnkelsson hélt áfram að frákasta fyrir Breiðablik eins og enginn væri morgundagurinn og splæsti í sex stig í röð fyrir Breiðablik. Njarðvíkingar gerðu þó vel að halda heimamönnum fjarri þegar þeir tóku sínar rispur og er óhætt að segja að síðustu 10 mínútur leiksins hafi sigurinn ekki verið í hættu nema einu sinni þegar Blikar hótuðu 7 stiga sveiflu. Í stöðunni 57-69 klikkuðu Blikar á þrist sem hefði minnkað muninn í 9 stig en sá vildi ekki niður og þar virtist allur vindur úr heimamönnum.
Lokatölur í Smáranum 61-80 Njarðvíkingum í vil þar sem Valur Orri Valsson var með 23 stig, 4 fráköst og 5 stoðsendingar. Næstur honum kom Oddur Birnir Pétursson með 14 stig og 10 fráköst. Þá voru þeir Maciej Baginski og Elvar Friðriksson báðir með 11 stig.
Hjá Blikum var Ægir Bjarnason stigahæstur með 17 stig og 5 stoðsendingar en Snorri Hrafnkelsson gerði 15 stig og tók 19 fráköst. Anton Sandholt var svo þriðji í röðinni með 9 stig og 11 fráköst.
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Ljósmyndir/ Tomasz Kolodziejski