Njarðvík í vondum málum
Snæfell vann í kvöld góðan sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik. Lokastaðan var 79-83 eftir hrikalegan lokakafla hjá Njarðvíkingum þar sem þeir misstu niður 21 stigs forskot á 13 mínútum og verða því að vinna næstu þrjá leiki einvígisins ef þeir vilja komast í úrslit.
Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn og voru aldrei meira en fimm stig sem skildu liðin að. Í upphafi annars leikhluta gekk Will Chavis berserksgang og skoraði úr þremur þriggja stiga körfum og einu víti og breytti stöðunni í 26-18.
Gestirnir söxuðu nokkuð á forskotið þegar á leið fjórðunginn og fór munurinn allt niður í 3 stig, en Njarðvíkingar settu í gírinn fyrir hálfleik og höfðu þegar þar var komið við sögu 11 stiga forskot, 45-34.
Um miðjan þriðja leikhluta tóku heimamenn enn á rás og skoruðu 12 stig gegn 2 Snæfellinga og voru komnir með öruggt forskot, 67-46.
Deildarmeistarar Snæfells voru þó ekki tilbúnir til að leggja árar í bát og bitu duglega frá sér og höfðu minnkað muninn niður í 6 stig í upphafi lokafjórðungsins.
Sóknarleikur Njarðvíkinga var hvorki fugl né fiskur á þessum leikkafla og voru Snæfellingar fljótir að refsa fyrir öll mistök þeirra. Húsið var þéttsetið þar sem stuðningsmenn gestanna gáfu heimamönnum ekkert eftir og nötraði húsið af spenningi.
Njarðvíkingar voru gersamlega ráðalausir í sókn og vörn og voru margir lykilmenn einnig komnir í villuvandræði. Á meðan gengu Snæfellingar á lagið og tóku öll völd á vellinum og jöfnuðu leikinn þegar ein og hálf mínúta voru eftir.
Brandon Woudstra og Friðrik Stefánsson voru sendir af velli með fimm villur á síðustu mínútunni og gáfu Njarðvíkingar Snæfelli einnig tæknivíti á ögurstundu. Eftirleikurinn var auðveldur þar sem Whitmore og Dotson skoruðu síðustu stig leiksins úr vítaskotum og geta Njarðvíkingar sjálfum sér um kennt að hafa hreinlega rétt Snæfelli sigurinn á silfurfati með því að skora einungis tvö stig á síðustu sex mínútunum.
Friðrik Ragnarsson sagði frammistöðu sinna manna á lokakaflanum vera hlægilega. „Við fórum að reyna að verja forskot í staðin fyrir að spila og það er það vitlausasta sem maður gerir. Við spiluðum eins og kjánar síðustu 13 mínúturnar og gáfum þeim þennan sigur.“
Aðspurður að því hvert framhaldið yrði sagði Friðrik að þeir þyrftu fyrst að vinna næsta leik áður en þeir hugsuðu lengra áfram.
Hér má finna tölfræði leiksins
VF-mynd: Þorgils Jónsson