Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík fyrir miðri deild
Miðvikudagur 28. júlí 2004 kl. 10:21

Njarðvík fyrir miðri deild

Njarðvíkingar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni við Fjölni í 1. deildinni í gærkvöldi. Lokatölur leiksins voru 4-2 Fjölni í vil sem nú verma 2. sætið í deildinni með 19 stig, jafn mörg og HK sem er í þriðja sæti. Á toppnum trjóna Valsmenn með 21 stig.

Fjörugir Fjölnismenn gangsettu leikinn með tveimur mörkum frá þeim Matic Slavisa á 7. mínútu og Ilic Mladen á þeirri tólftu. Á þessum stutta kafla voru gestirnir sem áhorfendur en náðu smátt og smátt að koma sér aftur inn í leikinn og sköpuðu sér nokkrar ágætis sóknir sem báru þó ekki ávöxt. Staðan í hálfleik því 2-0 Fjölni í vil.

Njarðvíkingar komu grimmir út úr leikhléi en vígtennurnar gátu ekki varnað óheppilegu sjálfsmarki Snorra Jónssonar á 50. mínútu. Fjölnir 3-0 Njarðvík. Þremur mörkum undir voru Njarðvíkingar ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn í 3-1 á 58. mínútu, þar fékk Snorri Jónsson uppreisn æru og bætti fyrir sjálfsmarkið. Skömmu eftir mark Snorra var það Guðni Erlendsson sem óð upp völlinn og skoraði með bylmingsskoti og minnkaði muninn í 3-2 og jafntefli í sjónmáli. Þrátt fyrir þungar sóknir gestanna vörðust Fjölnismenn vel og gerðu út um leikinn á 90. mínútu, markið gerði Davíð Þór Rúnarsson sem er einn af þremur markahæstu mönnum 1. deildar. 4-2 tap Njarðvíkinga gegn Fjölnismönnum því staðreynd.

Njarðvíkingar féllu eftir leikinn niður í sjötta sæti 1. deildar og er þetta í fyrsta sinn í sumar sem þeir eru fyrir miðri deild. Næsti leikur Njarðvíkur er þann 9. ágúst gegn toppliði Vals.

VF-mynd/ úr safni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024