Njarðvík fær liðsstyrk - Sigruðu Víkinga í gær
Tveir nýir leikmenn hafa gengið til liðs við Njarðvík síðustu daga. Magnús Örn Þórsson kemur til liðs við liðið frá Val sem lánsmaður. Magnús sem er að verða tvítugur hefur verið í æfingahóp Valsmanna. Hörður Ingi Harðarson kemur svo til liðs við Njarðvíkinga frá Víði í Garði. Hörður sem er 25 ára hefur leikið með Víðismönnum undanfarin ár. Þá hefur Bjarni Steinar Sveinbjörnsson framlengt samning sínum við Njarðvik um tvö ár. Bjarni Steinar er uppalinn hjá félaginu en var í láni hjá Þrótti Vogum sl. sumar.
Njarðvíkingar sigruðu Víkinga frá Reykjavík 2 - 3 í æfingaleik í Víkinni í gær. Það var hvasst og blautt í Víkinni og aðstæður til leiks ekki uppá það besta. Njarðvíkingar náðu að setja mark á heimamenn strax í upphafi leiks þegar Árni Þór Ármannsson skoraði. Víkingar náðu að jafna skömmu síðar og þannig var staðan í hálfleik. Víkingar tóku svo forystu snemma í síðari hálfleik en Njarðvíkingar voru fljótir að svara fyrir sig þegar boltinn fór af Víkingi í netið eftir hornspyrnu. Undir lokin náðu Njarðvíkingar að knýja fram sigur þegar Viktor Guðnason varamaður skoraði. Umfn.is greinir frá.
Mynd umfn.is/ Guðmundur Rúnar Jónsson formaður Knattspyrnudeildar UMFN ásamt Magnúsi Erni Þórssyni nýjum leikmanni félagsins.
[email protected]