Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

„Njarðvík er stórveldi“
Mynd frá Karfan.is
Fimmtudagur 12. október 2017 kl. 11:45

„Njarðvík er stórveldi“

„Tímabilið leggst mjög vel í mig, bæði innan sem utan vallar. Við vitum hvað við ætlum að gera og hvernig á að framkvæma það,“ segir Ragnar Nathanaelsson, leikmaður Njarðvíkur í körfuknattleik, en hann gekk til liðs við Njarðvíkinga fyrr í sumar.

Hann segir væntingarnar fyrir komandi tímabili skýrar. „Við ætlum að gera betur en á síðasta tímabili. Æfingarnar hjá Njarðvík hafa verið virkilega góðar og Daníel og Rúnar eru að gera mjög góða hluti.“ Hann segir þá góða liðsþjálfara sem geti einnig einblínt á sig sem einstakling og hvernig hann geti bætt sig sem leikmann. Þá sé Ólafur Hrafn einnig að gera góða hluti með drengjunum á styrktaræfingunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Njarðvíkingar áttu stórleik strax í fyrstu umferð Domino´s deildarinnar, en liðið tapaði 87:79 gegn Íslands- og bikarmeisturum KR. „Við áttum marga góða kafla í leiknum en þurfum að gera betur. Ég persónulega var ekki nógu góður. Bæði liðið og ég sjálfur ætlumst til meira frá mér.“

Ragnar er þó bjartsýnn fyrir komandi tímabili. „Þó ég sé nýr í liðinu ólst ég upp við að Njarðvík væri stórveldi og við ætlum okkur að sýna það í ár að Njarðvík er „mekka“ körfunnar.“

Næsti leikur Njarðvíkinga er útileikur gegn Þór Þorlákshöfn en leikurinn fer fram í kvöld, 12. október, og hefst kl. 19:15.