Njarðvík er komið í úrslitaleik Subway-deildar kvenna
Njarðvíkingar kláruðu deildarmeistara Fjölnis í Ljónagryfjunni í kvöld með þriðja sigrinum í úrslitakeppninni og mæta Haukum í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Eftir jafnan fyrri hálfleik gerðu Njarðvíkingar út um leikinn með miklum yfirburðum í þriðja leikhluta og lauk leiknum með sex stiga sigri þeirra (64:58).
Njarðvík - Fjölnir 64:58
(19:22, 11:10, 21:7, 13:19)
Það voru gestirnir sem byrjuðu betur og í fyrsta leikhluta náðu þær mest níu stiga forystu (10:19). Njarðvíkingar bitu þó frá sér og söxuðu muninn niður í þrjú stig áður en leikhlutinn var allur (19:22). Í öðrum leikhluta var lítið skorað en Njarðvík fór inn í hálfleikinn tveimur stigum á eftir Fjölni (30:32).
Þegar blásið var til seinni hálfleiks mættu Njarðvíkingarar til leiks með þvílíkum krafti að Fjölnisskonur vissu vart sitt rjúkandi ráð. Á meðan Njarðvík sullaði niður hverri körfunni af annari gátu ráðalausir leikmenn Fjölnis lítið sem ekkert svarað fyrir sig. Þarna réðust úrslitin því Njarðvíkingar skoruðu þrefalt á við Fjölni og lagfærði stöðuna um fjórtán stig, úr því að vera tveimur stigum undir í tólf stigum yfir (51:39). Þetta var meira en Fjölnir gat lagað í síðasta leikhluta og því voru það Njarðvíkingar sem fóru með sigur af hólmi og eru komnar í úrslit í fyrsta sinn í tíu ár en árið 2012 vann sinn fyrsta og eina Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki kvenna.
Aliyah Collier virðist endalaust geta bætt sig en hún var með 21 stig í leiknum, 24 fráköst, 7 stoðsendingar og 41 framlagspunkt. Þá var Diane Diéné Oumou með fínan leik (15 stig/14 fráköst/3 stoðsendingar/16 framlagspunktar) og Lára Ösp Ásgeirsdóttir kom einnig sterk inn (11/2/0/9).
Stoltur þjálfari Njarðvíkinga, Rúnar Ingi Erlingsson, var í viðtali við Karfan.is eftir leik og má sjá það í spilaranum hér að neðan.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var í Ljónagryfjunni og tók þær myndir sem má sjá neðst á síðunni.