Njarðvík datt úr bikarnum eftir slæman lokakafla
Síðasta vonin um bikarmeistaratitil til Suðurnesja í körfubolta þetta árið slokknaði í gær þegar Haukar slógu Njarðvík út í VÍS-bikar kvenna. Lokatölur gefa ekki rétta mynd af leiknum sem framan af var jafn en ljósin slokknuðu algjörlega á Njarðvíkingum í síðasta leikhluta.
Njarðvík - Haukar 55:83
(17:21, 17:24, 13:13, 10:25)
Lengi vel var allt jafnt í leiknum en Haukar gáfu aukalega undir lok fyrsta og annars leikhluta. Í fyrsta leikhluta náði Njarðvík þriggja stiga forystu (10:7 og 14:11) en Haukar nýttu síðustu mínútuna vel og náðu fjögurra stiga forystu. Annar leikhluti spilaðist svipað, Njarðvíkingar réttu sinn hlut og þegar tvær mínútur voru til hálfleiks var staðan jöfn (34:34). Það voru hins vegar Haukar sem settu niður ellefu stig í röð og leiddu því í hálfleik 34:45.
Njarðvíkingar héldu áfram að berjast í þriðja leikhluta þótt stigaskorun liðanna léti standa á sér, hvort lið gerði þrettán stig í leikhlutanum og því sami munur á liðunum fyrir síðasta leikhlutann, ellefu stig (47:58).
Þegar kom í fjórða leikhluta var eins og Njarðvík gæfist upp og í stöðunni 51:65 kom sex mínútna kafli sem Njarðvík skoraði ekki stig gegn átján stigum Hauka. Staðan því 53:83 þegar innan við tvær mínútur eftir. Það voru því Haukar sem mæta Blikum í úrslltum VÍS-bikarsins í ár.
Frammistaða Njarðvíkinga: Diane Diéné Oumou 18/9 fráköst, Aliyah A'taeya Collier 15/13 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 8/5 fráköst, Vilborg Jonsdottir 5, Kamilla Sól Viktorsdóttir 3, Krista Gló Magnúsdóttir 2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 2, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 2, Helena Rafnsdóttir 0, Ása Böðvarsdóttir-Taylor 0, Crnac Dzana 0.