Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Njarðvík bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni
Laugardagur 18. febrúar 2012 kl. 13:33

Njarðvík bikarmeistari í fyrsta sinn í sögunni





Það var alvöru bikarslagur sem fór fram í Laugardalshöll nú fyrir skömmu þar sem Njarðvíkurstúlkur lyftu bikarnum í fyrsta sinn í sögunni hjá kvennaliðinu. Leikurinn hafði allt til alls og stemningin var algerlega frábær. Shanae Baker-Brice var valin maður leiksins en hún fór fyrir Njarðvíkingum hér í dag. Sverrir Þór þjálfari var að vonum sáttur í leikslok og sagði í samtali við Víkurfréttir að baráttan hefði skilað bikarnum í hús en hann kvaðst afar stoltur af sínum leikmönnum. Ólöf Helga Pálsdóttir fyrirliði var kampakát í leikslok og hún vildi koma sérstaklega koma á framfæri þökkum til áhorfenda sem voru fjölmargir í laugardalshöll hér í dag.

Lokatölur 84-77 fyrir Njarðvík og Shanae Baker-Brice með algeran stórleik fyrir grænar. 36 stig, 16 fráköst og 9 stoðsendingar. Hardy skilaði 26 stigum og 24 fráköstum, það er alls ekki amalegt. Petrúnella var svo með 18 stig og Ólöf Helga reif svo niður 9 fráköst. Til hamingju Njarðvíkingar.

Snæfell-Njarðvík 77-84 (19-22, 19-19, 20-25, 19-18)

Njarðvík: Shanae Baker-Brice 35/16 fráköst/9 stoðsendingar/5 stolnir, Lele Hardy 26/24 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 18, Salbjörg Sævarsdóttir 3, Ólöf Helga Pálsdóttir 2/9 fráköst, Sara Dögg Margeirsdóttir 0, Ína María Einarsdóttir 0, Harpa Hallgrímsdóttir 0, Eyrún Líf Sigurðardóttir 0, Erna Hákonardóttir 0, Aníta Carter Kristmundsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0.
Dómarar: Kristinn Oskarsson, Georg Andersen


Snæfell: Kieraah Marlow 37/4 varin skot, Jordan Lee Murphree 15/15 fráköst/5 stoðsendingar/4 varin skot, Hildur Sigurdardottir 13/6 fráköst/6 stoðsendingar, Alda Leif Jónsdóttir 5/5 fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir 4, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Aníta Sæþórsdóttir 0, Berglind Gunnarsdóttir 0, Ellen Alfa Högnadóttir 0, Sara Mjöll Magnúsdóttir 0, Helga Hjördís Björgvinsdóttir 0.

Bein textalýsing hér að neðan:

Þegar 18 sekúndur eru eftir  er Baker á línunni og Njarðvík leiðir með 4 stigum.

Njarðvíkingar stela svo boltanum og eiga möguleika á því að auka muninn. Hardy setur niður stökkstok og fær villu að auki, Njarðvíkingar ærast af fögnuði og vítið ratar ofaní.  Munurinn 6 stig. Áhorendur eru allir á fótum og andrúmsloftið er rafmagnað. Hardy kemur Njarðvík í 78-75 og Marlow setur misnotar tö vítaskot fyrir Snæfell. 1: 43 eftir.

Munurinn er aðeins 3 stig og Snæfellingar virðast vera að ná yfirhöndinni.

Leikhlé þegar að 5 mínútur lifa af leiknum. Þetta mun ráðast í lokin, það er nokkuð víst.

Nú er allt undir og spennan er orðin mikil hér í Laugardalshöll. Þegar að 7 mínútur eru eftir eru Njarðvíkingar yfir 70-65.

66-58 þegar að lokaspretturinn er eftir. Vörn Snæfellinga er að komast í gang og Njarðvíkingar eru í mestu vandræðum. Snæfellingar koma með sterkt áhlaup og munurinn er 10 stig þegar að 1:49 eru eftir af 3. leikhluta. Njarðvíkingar eru að kafsigla Snæfellinga um þessar mundir. Aftur er Petrúnella á ferðinni en hún er komin með 16 stig. Petrúnella setur niður ótrúlegt langskot og  Njarðvíkingar eru skyndilega komnir með 16 stiga forystu. Áhorfendur rísa úr sætum sínum og nú er kátt í Höllinni. Baker er algerlega að fara á kostum hjá Njarðvíkingum og skorar körfur af öllum gerðum og stærðum. Hardy er byrjuð að setja skotin sín niður en hún er komin með 10 sig og 16 fráköst. Njarðvíkingar eru að komast örlítið fram úr Snæfellingum og leiða með 10 stigum. Baker heldur áfram þar sem frá var horfið og setur niður þriggja stiga körfu strax í upphafi síðari hálfleiks. Ólöf Helga bætir við körfu og staðan er 48-38 fyrir Njarðvík.

Njarðvíkingar leiða 41-38 í hálfleik og er Shanea Baker þegar komin með 24 stig hjá þeim grænu. Hjá Snæfellingum er Marlow líka með 24 stig en þessar tvær eru í algerum sérflokki það sem af er. Snæfell kemst yfir þegar að 1: 30 eru þar til flautað er til hálfleiks en Baker kemur Njarðvíkingum jafn harðan yfir og fær villu að auki. Staðan 38-36 fyrir grænar.Njarðvíkingar eru að klúðra mörgum sniðskotum sem gæti reynst þeim dýrkeypt þegar uppi er staðið. Lele Hardy er engan veginn að finna sig og hefur hún misnotað fjölmörg auveld skot. Vinkona hennar, Baker er hins vegar í stuði og virðist óviðráðanleg hér þegar 3 mínútur eru til hálfleiks. Nokkuð er enn um klaufaleg mistök og taugarnar segja sjálfsagt enn til sín. Leikurinn er jafn og spennandi og allt stefnir í hörku leik. Baker heldur áfram að ógna vörn Snæfellinga með miklum hraða sínum en hún er komin með 13 stig.

Staðan að loknum 1. leikhluta er 22-19 fyrir Njarðvíkinga þar sem Shanea Baker hefur farið mikinn. Lele Hardy á í vandræðum með að koma boltanum í körfuna en hún er dugleg að hirða sóknarfráköst í teig Snæfellinga. Shanae Baker-Brice er komin með 11 stig og 6 fráköst en Njarðvíkingar eru nú þegar komnir með 17 fráköst.

Petrúnella er kominn með tvo þrista og Njarðvík leiðir 12-16 þegar að tæpar 3 mínútur eru eftir af 1. leikhluta. Njarðvíkingar sækja hratt á Snæfellinga sem spila svæðisvörn hér í upphafi leiks. Það er smá taugaveiklun hjá leikmönnum en bæði lið eru að finna sig hægt og rólega þó hittnin sé ekki góð. Snæfell leiðir 4-2 þegar 3 mínútur eru liðnar.

Snæfellingar skora fyrstu körfuna en hjá Njarðvíkingum byrja þessar leikinn: Petrúnella Skúladóttir, Ólöf Helga Pálsdóttir, Harpa Hallgrímsdóttir, Lele Hardy og Shanae Baker-Brice.

Bikarúrslitin eru að hefjast í Höllinni í þessum töluðu orðum og Njarðvíkingar eru fjölmennir í stúkunni. Nú er að hefjast viðureign Njarðvíkinga og Snæfells og í bikarúrslitum kvenna og við munum greina frá gangi mála hér á vf.is.

Stemningin er flott og augljóst að hart verður barist.

Myndir: Páll Orri Pálsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024