Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Miðvikudagur 22. janúar 2003 kl. 21:27

Njarðvík batt enda á sigurgöngu granna sinna

Loksin kom að því að Keflavíkurstúlkur töpuðu leik á tímabilinu en þær höfðu unnið alla leiki sína í deildinni og voru það grannar þeirra úr Njarðvík sem bundu enda á sigurgönguna með sigurkörfu á lokasekúndu leiksins. Lokatölur urðu 64:62, heimastúlkum í hag. Leikurinn var hnífjafn í lokin og voru taugar beggja liða þandar til hins ýtrasta og talsvert var um mistök á báða bóga. Þegar 22 sekúndur voru til leiksloka náðu Njarðvíkurstúlkur frákasti á eigin vallarhelmingi og fóru í sókn. Klukkan leið og þegar um 7 sekúndur voru eftir tók Krystal Scott skotið en það geigaði. Birna Valgarðsdóttir náði frákastinu en missti boltann í hendurnar á Evu Stefánsdóttur sem þakkaði pent fyrir sig og skoraði með góðu skoti rétt fyrir utan teig.
Einar Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga var að vonum sáttur í leikslok. "Keflavík er ekki ósigrandi, við sýndum það hér í kvöld. Við vorum með tvö markmið í vikunni en það var að vinna tvo af þeim þremur leikjum sem framundan eru. Fyrir leikinn í kvöld settum við það markmið að halda Keflavík í 65 stigum og það voru ekki margir í veröldinni sem trúðu því að við gætum það, miðað við stöðuna í hálfleik. Við spiluðum gríðarlega vel í lokin, sýndum mikla baráttu og löngun til að sigra og það er það sem þarf í svona leikjum þar sem dramatíkin er eins og í kvöld. Stelpurnar geta verið sáttar með spilamennsku sína og karakterinn í kvöld. Nú er það bara næsti leikur sem við þurfum að fara að huga að því það er hellingur eftir að tímabilinu", sagði Einar í samtali við Víkurfréttir.
Að loknum 13 umferðum eru Keflavíkurstúlkur enn langefstar með 24, Grindavík er í 2. sæti með 14 og í 3.-4. sæti eru KR og Njarðvík með 12 stig.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024