Njarðvík áfram í bikarnum
Njarðvík sigraði ÍR 4 - 2 í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ á Njarðtaksvellinum á miðvikudag. Leikurinn byrjaði fjörlega og heimamenn mættu ákveðir til leiks og pressuðu ÍR-inga. Það voru þó gestirnir sem náðu forystunni í leiknum þegar Viggó Kristjánsson skoraði á 7. mínútu en Njarðíkingar voru fljótir að svara fyrir sig og á 9. mínútu jafnaði Hörður Ingi Harðarson. Njarðvikingar náðu forystunni skömmu síðar með marki frá Einari Val Árnasyni og þá fóru í gang fjörugar kafli því Hörður Ingi bætti við marki á 25 mínútu og ÍR-ingar minnkuðu munin á þeirri 26. þegar Elvar Páll Sigurðsson skoraði. Það sem eftir lifði af hálfleiknum voru heimamenn sterkari aðilinn. Staðan 3 - 2 í hálfleik.
Í seinnihálfleik var boðið uppá baráttu og skiptust liðin á að sækja og verjast. Nokkur færi á báða bóga en það voru Njarðvíkingar sem skorðuðu fjórða mark sitt á 94. mínútu þegar Sindri Örn Steinarsson skoraði í sínum fyrsta leik með Njarðvík.
Nú er bara sjá hvaða lið dregst á móti Njarðvík á föstudaginn þegar dregið verður í 32 liða úrslit og Pepsi deildarliðin bætast við. Næsti leikur liðsins er svo á laugardaginn gegn Reyni Sandgerði á Njarðtaksvellinum.
Mynd: Andrés Ari Ottósson