Njarðvík áfram í 2. deild þrátt fyrir tap í Þorlákshöfn - myndir
Hífandi rok og tvö ævintýraleg mörk heimamanna
Njarðvíkingar munu leika í 2. deild karla næsta sumar. Þetta varð ljóst í dag þegar flautað var til leiksloka í síðastu umferð Íslandsmótsins sem leikin var í dag. Njarðvík tapaði fyrir Ægi í Þorlákshöfn en þrátt fyrir tapið halda Njarðvíkingar sæti sínu á kostnað Tindastóls sem að tapaði fyrir Aftureldingu.
Það var hífandi rok í Þorlákshöfn þegar Njarðvíkingar sóttu heimamenn í Ægi heim. Fyrir leikinn voru Ægismenn með bakið uppvið vegginn góða og þurftu nauðsynlega að sigra til að bjarga sér frá falli. Það byrjaði ekki byrlega því að Theódór Guðni Halldórsson kom Suðurnesjapiltum yfir með marki á 6. mínútu og voru Njarðvíkingar 0-1 yfir í hálfleik.
Á 3. mínútu síðari hálfleiks skoruðu Ægismenn ótrúlegt mark þegar Ragnar Olsen, markvörður þeirra, skoraði beint úr útsparki, en það þykir sjaldséð en er ávallt vel séð. Njarðvíkingar eru því vissulega ósammála en til að bæta gráu ofan á svart var vindurinn aftur að verki þegar Ægir komst yfir á 55. mínútu þegar Kristján Vilhjálmsson skoraði frá eigin vallarhelmingi og fólk að verða vitni að ævintýralegum hlutum í Þorlákshöfn.
Kristján Þorkelsson kom svo Ægismönum í 3-1 korteri fyrir leikslok og var þá farið að fara verulega um Njarðvíkinga því staðan í leik Tindastóls og Aftureldingar var 1-1 og Njarðvíkingar fallnir þegar hér er komið við sögu.
Afturelding komst svo í 1-2 á Sauðárkróki þegar rúmlega tíu mínútur lifðu leiks þar og ljóst að þessi úrslit myndu duga Njarðvíkingum en þó nóg eftir á klukkunni.
Gísli Freyr Ragnarsson minnkaði muninn fyrir Njarðvík 10 mínútum fyrir leikslok og Njarðvíkingar freistuðu þess að jafna metin á lokamínútunum. Það gerðist ekki en í staðinn voru það Ægismenn sem að bættu við fjórða markinu á 90. mínútu og urðu lokatölur 4-2 fyrir heimamenn. Þau úrslit reyndust nóg fyrir Njarðvík því ekki voru skoruð fleiri mörk á Sauðárkróki og því ljóst að Njarðvíkingar leika áfram í 2. deild að ári.
Theódór Guðni Halldórsson kemur Njarðvík yfir á 6. mínútu
Njarðvíkingar fögnuðu markinu vel. Það átti eftir að reynast skammgóður vermir.
Brynjar Freyr Garðarsson í baráttunni.
Það var hífandi rok í Þorlákshöfn í dag.