Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fimmtudagur 18. janúar 2001 kl. 10:28

Njarðvík á toppnum

Njarðvíkingar skutu sér á topp Epson deildarinnar á þriðjudagskvöld með sigri á Keflvíkingum 74-63 í Ljónagryfjunni á Brekkustígnum. Hér á eftir verður farið yfir gang leiksins, frammistöðu einstakra leikmanna og stöðuna í deildinni.
Þessi bestu lið landsins síðustu 20 árin mættust einn einu sinni með toppsætið að veði. Framan af leik virtust þó heilladísirnar með Keflvíkingum því þeir Magnús Gunnars og Birgir Guðfinns skiluðu þeim góðum flautukörfum í fyrsta og öðrum leikhluta. Í þeim þriðja skildi á milli, vörn Njarðvíkinga varð að ókleyfum múr og Logi „Elding“ Gunnars hitnaði í sókninni. Friðrik Ragnars kom Njarðvík í 58-49 með því að endurgreiða Magnúsi flautukörfuna í fyrsta leikhluta.
Síðasti leikhluti var síðan jafn og spennandi en bilið varð ekki brúað og verðlaunin toppsætið óskipt því Tindastóll setti illilega í brók gegn botnliði Vals/Fjölnis á sama tíma. Bestir Njarðvíkinga voru stóru mennirnir Friðrik og Jes sem söfnuðu í kirkjubaukinn 22 stigum og 19 fráköstum á sama tíma og þeir vörðust toppmanni deildarinnar Calvin Davis sem var yfirburðamaður í Keflavíkurliðinu með 20 stig og 14 fráköst, hvoru tveggja þó undir meðaltali pilts. Þá er hluti Loga ótalinn en hraðinn á pilti er stundum meiri en augað nemur . Spurningarnar „Má ég fá að sjá þetta aftur?“ og „Hvað gerði hann?“ koma stundum upp í hugann þegar hann er annars vegar.

Einn maður til eða frá?
Fjarvera Fals Harðarsonar vegna meiðsla og endurkoma Friðriks Stefánssonar hefur breytt báðum liðum svo um munar. Án Fals hefur Keflvíkinga vantað „leiðtoga“ á lokamínútum leikja, mann sem getur klárað leikina sjálfur sem og komið öðrum leikmönnum í færi til að gera slíkt hið sama. Hinum megin í bænum hefur Friðrik breytt ólgandi árfarveg í ágætis stíflu og er ég hér að tala um varnarleik Njarðvíkinga. Liðið hefur umhverfst úr lélegasta varnarliði deildarinnar í það besta á einum mánuði.

Enn í sjöunda sæti
Grindvíkingar unnu öruggan sigur á nýliðum ÍR 104-82 í Grindavík. Einar Einarsson virðist hafa náð sér í ágætis leikmann í Kevin Daley og hann skoraði 27 stig og tók 12 fráköst gegn ÍR-ingum sem ekki hafa unnið leik eftir áramót og eru dottnir niður fyrir Borgnesinga eftir stórgóða byrjun. Elentínus Margeirs átti sinn besta leik fyrir Grindavík, 14 stig, 5 stoðsendingar og 2 stolnir boltar, og misnotaði ekki skot í leiknum. Stórskyttan Páll Vilbergs hafði hægt um sig í stigaskoruninni en náði næstum þrefaldri tvennu, 11 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar.

Stutt hlé og svo erfiðir leikir
Framundan er stutt hlé í Epson deildinni en 1. febrúar leika liðin að nýju og eiga Suðurnesjaliðin erfiða leiki fyrir höndum. Njarðvíkingar þurfa að verða fyrstir til að sigra Hamarsmenn í Hveragerði til að halda toppsætinu og Keflvíkingar fá Grindvíkinga í heimsókn en Grindvíkinga þurfa nauðsynlega að hala sig upp úr „neðri hluta“ deildarinnar.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024