Njarðvík á sigurbraut
Njarðvíkingar unnu sinn annan sigur í 2. deildinni í knattspyrnu þegar Fjarðabyggð kom í heimsókn á laugardag. Leikurinn var baráttuleikur frá upphafi til enda en Njarðvíkingar unnu 2-1 sigur að lokum. Gestirnir voru fyrri til að skora þegar Dejan Miljakovic skoraði með góðu skoti á 17. mínútu. Einar Valur Árnason náði síðan að jafna fyir Njarðvíkinga á 26. mínútu eftir mikið klafs á marklínunni. 1 - 1 var staðan í hálfleik.
Sama baráttan hélt áfram í seinni hálfleik og skiptust liðin á að sækja. Sigurmarkið kom síðan á 72. mínútu er Garðar Sigurðsson skoraði með góðu skoti í stöngina og inn en það var reyndar varnarmaður gestanna sem stýrði boltanum endanlega í netið. Eftir markið voru heimamenn miklu meira ógnandi og Garðar átti hörkuskot í slánna stuttu seinna.
Mynd: Garðar skoraði sigurmark Njarðvíkinga.