Níu Grindvíkingar héldu jöfnu
Grindavík náði jafntefli gegn Keflavík í leik liðanna í Landsbankadeild karla í gær, 1-1, þrátt fyrir að hafa verið tveimur færri á Keflavíkurvelli í gær.
Leikurinn var bráðfjörugur þrátt fyrir að aðstæður væru ekki sem allra bestar, mikil rigning og völlurinn þungur og blautur.
Grindvíkingar voru lítið eitt aðgangsharðari við mark heimamanna í upphafi leiks og fengu ákjósanlegt færi strax á fjórðu mínútu leiksins þegar Eyþór Atli Einarsson geystist upp völlinn og fékk sendingu frá Magnúsi Þorsteinssyni inn í teig, en skot hans fór naumlega framhjá markinu.
Eftir þaðrönkuðu Keflvíkingar við sér og átti guðjón Árni Antoníusson gott skot frá vítateigslínu sem hafnaði í varnarmanni og Hólmar Örn Rúnarsson átti skömmu síðar skot af löngu færi sem fór yfir markið.
Jafnræði var með liðunum þegar Sinisa Valdimar Kekic fékk góða sendingu inn í teig Keflavíkur á 16. mínútu og tók glæsilega við honum eins og honum er einum lagið. Kekic sneri á Guðjón og lagði boltann í markið framjhá Ómari Jóhannssyni og kom sínum mönnum í 0-1.
Keflvíkingar létu ekki hugfallast og voru fljótir að svara. Stefán Örn Arnarson vann boltann af varnarmanni Grindavíkur og óð upp völlinn með Hörð Sveinsson sér til fulltingis. Hann renndi knettinum á Hörð sem skaut viðstöðulausu skoti neðarlega á markið sem Boban Savic náði ekki að hafa hendur á og jafnaði metin, 1-1.
Eftir það voru Keflvíkingar sterkari aðilinn í leiknum þar sem þeir fengu munfleiri færi og gerði Savic t.d. vel á 33. Mínútu þegar hann varði skalla Guðmundar Steinarssonar af stuttu færi. Hólmar átti fyrirgjöfina á Guðmund en Hólmar átti mjög góðan leik og var síógnandi með hættulegum fyrirgjöfum og skotum.
Lítið kom upp úr miðjuspili Grindvíkinga, en vörnin var þétt mað þá Óla Stefán Flóvensston og Mathias Jack fremsta í flokki.
Undir lok hálfleiksins færist aftur fjör i leikinn þegar Kekic komst innfyrir ómar í marki keflavíkur en var í þröngu færi og gaf út á Paul McShane í teignum. Paul var í upplögðu færi en varnarmaður komst fyrir skot hans og varði í horn.
Enn dró til tíðinda þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyri hálfleik þegar Eyþór togaði Guðjón Árna niður aftanfrá þegar hann var við það að sleppa í gegnum vörnina. Eyþór fékk þar sitt annað gula spjald og fór því af velli.
Þegar Grindvíkingar komu út í seinni háflleikinn var augljóst hver skipun Milans Stefáns Jankovic, þjálfara, var. Nú skildi leikið skynsamlega og reynt að beita skyndisóknum.
Keflvíkingar pressuðu stíft í upphafi háflleiksins en fengu engin afgerandi færi.
Eftir um klukkustundar leik kom Frakkinn Mounir Ahandour inná af bekk Grindvíkinga og átti eftir að láta mikið að sér kveða. Hann olli varnarmönnum Keflavíkur miklum vandræðum með hraða sínum í skyndisóknum.
Litlu mátti muna að hann kæmi gestunum yfir á 71. Mínútu þegar hann slapp innfyririr vörnina og átti gott skot sem fór framhjá og hefði hann þar hæglega getað galopnað leikinn.
Þannig gekk leikurinn um stund, Keflavík sótti og Grindavík varðist vel og reiddi sig á skyndisóknir.
Á 83. mínútu fækkaði enn í röðum Grindvíkinga þegar Óðinn Árnason var sendur í sturtu eftir samstuð við Branislav Milicevic. Kristinn Jakobsson, dómari, taldi Óðinn hafa farið glannalega í tæklinguna þannig að hné hans fór í höfuð Milicevics. Á endursýningum kemur hins vegar í ljós að um óviljaverk var að ræða.
Vinsældir Kristins meðal stuðningsmanna Grindavíkur jukust ekki þegar hann dæmdi vítaspyrnu á gestina á 85. mínútu þegar boltinnn fór í hönd Óla Stefáns Flóventssonar. Boban Savic gerði sér hins vegar lítið fyrir og varði frekar slaka spyrnu Guðmundar Steinarssonar.
Grindvíkingar þéttu enn vörnina síðustu mínúturnar og rátt fyrir að vera tveimur mönnum færri héldu þeir haus og stiginu sem þeir unnu svo sannarlega fyrir.
„Það var ótrúlegt hvað þeir náðu að halda boltanum vel eftir að þeir voru einum færri,“ sagði Hólmar Örn Rúnarsson, einn besti maður vallarins. „Við gáfum þeim allt of mikinn tíma á boltanum og þeir leystu þetta vel. Þegar við vorum orðinir tveimur fleiri var þetta bara óheppni að koma tuðrunni ekki inn. Við fengum víti sem hann varði vel. Þeir eru að berjast fyrir lífi sínu eins og flest liðin í deildinni og stóðu sig vel. Við vorum að sama skapi ekki að leika vel í sókninni.“
Milan Stefán Jankovic var sáttur við að sækja stig á sinn gamla heimavöll. „Okkar skipulag þegar við vorum manni færri var að halda boltanum og strákarnir gerðu það mjög vel og ég verð að hrósa þeim fyrir það og baráttuna. Með smá heppni hefðum við meira að segja getað stolið sigrinum. Þetta voru tvö góð lið sem léku skemmtilegan leik með mikið af færum þannig að jafntefli var sanngjarnt.“
VF-myndir/HRÓS- Fleiri myndir má sjá í myndasafninu hér að ofan