Nicolai: Munu setja mikla pressu á okkur
Næsti fimmtudagur verður stór dagur í lífi hins danska Nicolai Jörgensen en þá mætir hans gamla félag Midtjylland í heimsókn til Keflavíkur þar sem liðin munu leika sinn fyrsta leik af tveimur í undankeppni UEFA keppninnar í knattspyrnu. Nicolaj var á mála hjá Midtjylland í fimm ár og þykir það miður að einn hans besti félagi hjá danska liðinu, markvörðurinn Anders Rasmussen, verði ekki með sökum meiðsla. Nicolaj segir það hafa farið í taugarnar á sér að Keflavík hefði þurft að leika fyrsta leikinn á heimavelli.
„Þegar ég lék með Midtjylland þá mættum við B 36 frá Færeyjum í sömu keppni og rétt mörðum sigur gegn þeim þar sem við vanmátum þá stórlega. Þess vegna hefði ég viljað spila fyrsta leikinn gegn þeim í Danmörku þar sem við hefðum getað nýtt okkur betur vanmat þeirra,“ sagði Nicolai en ákveðið var að leika fyrsta leikinn í Keflavík þar sem vinna stendur nú yfir á heimavelli Midtjylland.
„Fyrsti leikurinn átti að vera í Danmörku en það er ekki okkar vandamál að þeir séu að gera og græja við sinn völl. Grasið þar er í góðu standi en þeir eru bara að setja upp auglýsingaskilti og stóra skjái á leikvellinum,“ sagði Nicolai og ljóst að hann telur það vera erfiðara fyrir Keflavík að leika fyrsta leikinn heima.
Við hverju mega Keflvíkingar búast gegn Midtjylland á fimmtudag?
„Þetta verður fyrsti mikilvægi leikurinn hjá þeim á tímabilinu og strax næsta mánudag hefst svo leiktíðin þeirra í Danmörku. Við megum búast við því að þeir setji mikla pressu á okkur, sérstaklega fyrsta korterið. Þeir leika á hærra tempói en við gerum hér og þetta verður virkilega erfitt verkefni. Midtjylland hefur þó selt sterka leikmenn en keypt nýja svo það er okkur til happs að þeir eru núna að leita að nýju jafnvægi í sínum leik.“
Hver er helsta ógn Midtjylland?
„Ég myndi segja að það væri sóknarmiðjumaðurinn Mikkel Thygesen. Hann lúrir milli miðju og sóknar og er mjög ógnandi. Thygesen er einnig mjög vinnusamur og á örugglega eftir að valda nokkrum usla,“ sagði Nicolai sem kvaðst mjög spenntur og vonaði innlega að honum tækist að tryggja sér sess í byrjunarliði Keflavíkur fyrir leikinn á fimmtudag.
VF-myndir/ Á efri myndinni er Nicolai í leik gegn Fylki fyrr í sumar en á þeirri neðri er helsta ógn Midtjylland, Mikkel Thygesen.