Nettómótið aldrei verið stærra
Búist við 1200 körfuboltakrökkum í Reykjanesbæ
Ljóst er að metfjöldi keppenda mætir á Nettómótið í körfubolta sem haldið verður í Reykjanesbæ um helgina. Búist er við 1200 keppendum en það mun vera 10% aukning frá síðasta ári. Aldur keppenda er 6-11 ára (1.-6. bekkur) af báðum kynjum.
Stigin eru ekki talin í mótinu og því ljóst að leikgleðin ræður ríkjum. Allir þátttakendur fá svo verðlaunapening að móti loknu. Ýmis skemmtiatriði verða á kvöldvöku og boðið upp á veitingar alla helgina.
Góð samvinna körfuknattleiksdeilda UMFN og Keflavíkur og metnaður þeirra að hafa mótið alltaf sem glæsilegast er greinilega að skila sér.
Það er ávallt líf og fjör á Nettómótinu.