Nes er fyrirmyndarfélag
Nes, íþróttafélag fatlaðra á Suðurnesjum, hlaut í gær, fyrst allra félaga innan íþróttasambands fatlaðra, viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Fulltrúi Íþrótta- og Ólympíusambandsins mætti á uppskeruhátíð félagsins í gær og afhenti formanni félagsins, Kjartani Steinarssyni, viðurkenningu þess efnis.
Liðsmenn Ness fjölmenntu ásamt vinum og vandamönnum á hátíðina, sem var haldin í Njarðvíkurskóla, og var auðvitað glatt á hjalla. Þar var dansað og sungið auk þess sem allir fengu grillaðar pulsur. Nesarar stóðu sjálfir fyrir skemmtiatriðum og þá gátu krakkarnir látið mála sig í framan.
Þá voru veitt einstaklingsverðlaun fyrir bestu frammistöðu vetrarins og svo var dregið úr glæsilegum happdrættisvinningum. Skemmtunin var öll hin glæsilegasta og skemmtu gestir sér konunglega.