Neðri deildar boltinn: Njarðvíkingar steinlágu á Ólafsfirði
Reynismenn og Þróttarar unnu - Víðir enn að leita að fyrsta sigrinum
Njarðvík tapaði í gærkvöldi öðrum leik sínum í röð í 2. deild karla þegar liðið tapaði stórt á fyrir KF á Ólafsfirði. Lokatölur urðu 4-0 eftir að heimamenn höfðu verið yfir í hálfleik, 3-0.
Njarðvík er í 4. sæti deildarinnar með 10 stig og hefur misst dampinn eilítið eftir frábæra byrjun á mótinu.
Í þriðju deildinni sigruðu Reynismenn Álftnesinga 2-1 í Sandgerði á miðvikudagskvöldið. Reynismenn voru 1-0 yfir í hálfleik og var það Pétur Jaidee sem að skoraði markið á 19 mínútu. Álftnesingar jöfnuðu metin á 62. mínútu en heimamenn í Reyni skoruðu svo sigurmark leiksins á 78. mínútu úr vítaspyrnu sem að Jóhann Magni Jóhannsson framkvæmdi.
Reynir er í 5. sæti 3. deildar með 7 stig.
Lítið gengur hjá Víðismönnum að finna fyrsta sigur sinn á tímabilinu en liðið lá á útivelli gegn Berserkjum í Víkinni 2-0.
Sá stórfurðulegi atburður átti sér stað í leiknum að Árni Þór Ármannsson, leikmaður Víðis, fékk að líta tvö gul spjöld án þess að dómari leiksins áttaði sig á því að Árni hefði átt að fá rautt spjald í kjölfar annars spjaldsins og náðu Víðismenn að skipta Árna útaf skömmu síðar í stað þess að leika manni færri. Arnar Smárason, fyrirliði liðsins, fékk þó að líta rautt spjald 10 mínútum fyrir leikslok.
Víðismenn eru í 9. sæti deildarinnar með 2 stig.
Í 4. deildinni er ekkert lát á velgengni Þróttara sem að unnu sinn þriðja leik í röð þegar þeir sigruðu Ísbjörninn 9-1 á Vogabæjarvelli í gærkvöldi. Þróttur var yfir í hálfleik 3-0 og rigndi mörkunum svo inn í þeim síðari.
Mörk Þróttar skoruðu þeir Árni Sæmundsson, Ragnar Valberg Sigurjónsson, Kristján Steinn Magnússon (2), Magnús Ólafsson (2) og Andri Gíslason (3).
Þróttur er í efsta sæti C-riðils 4. deildar með 9 stig.