Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Naumt tap gegn Fylki í Grindavík
Sunnudagur 27. júní 2010 kl. 19:17

Naumt tap gegn Fylki í Grindavík


Í dag tóku Grindvíkingar á móti Fylki í 9. umferð Pepsi-deildar karla. Heimamenn töpuðu naumlega, 2-1, en sigurmarkið kom aðeins fimm mínútum fyrir leikslok. Eftir leikinn í dag sitja Grindvíkingar í næstneðsta sæti deildarinnar með sex stig, tveimur stigum meira en Haukar a botninum og einu minna en Selfossi í tíunda sæti.

Leikmenn liðanna voru varla komnir inná völlinn þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Það gerði Jóhann Þórhallsson fyrir Fylki eftir að boltinn skall í stöngina eftir misheppnað skot hjá Ingimundi Níels Óskarssyni. Markið var eins og blaut tuska í andlit Grindvíkinga enda rétt liðin mínúta af leiknum. Fyrsta alvöru færi Grindvíkinga kom á 20. mínútu. Scott Ramsey átti gott hlaup upp hægri kantinn og náði að koma skoti á markið en Valur Fannar, markvörður Fylkis, sá við honum og varði glæsilega. Átta mínútum síðar áttu Grindvíkingar gott færi. Scott Ramsey sendi boltann á Gilles Mbang Ondo sem náði skoti rétt fyrir innan vítateig, hann hafði þó ekki heppnina með sér því boltinn small í tréverk gestanna. Gilles var aftur á ferðinni á 40. mínútu þegar hann sendi boltann á Grétar Ó. Hjartarson sem skallaði boltann rétt framhjá markinu. Staðan í hálfleik 0:1.

Fylkismenn voru töluvert hressari en gestgjafarnir á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Á 50. mínútu voru heimamenn heppnir að lenda ekki tveimur mörkum undir þegar Jóhann Þórhallsson átti góðan skalla að marki Grindvíkinga en boltinn fór í stöngina. Fimm mínútum komst Jóhann Þórhallsson inn fyrir vörn Grindvíkinga, hann reyndi að vippa boltanum yfir Rúnar Dór í markinu en boltinn fór yfir markið. Grétar Ó. Hjartarson jafnaði metin fyrir Grindvíkinga á 59. mínútu. Scott Ramsey tók aukaspyrnu af hægri kantinum og sendi boltann út úr teignum, þar tók Grétar við honum og afgreiddi hann glæsilega í markið í gegnum leikmannaþvöguna í vítateignum. Bæði lið áttu nokkur ágætis færi eftir þetta en lítið var um dauðafæri. Á 85. mínútu skoraði Jóhann Þórhallsson sitt annað mark og annað mark Fylkis og kom þeim í 1:2. Jóhann tók boltann á miðju, hljóp upp völlinn og afgreiddi knöttinn svo í bláhornið, óverjandi fyrir Rúnar Dór í markinu. Svekkjandi ósigur Grindvíkinga því staðreynd 1:2.

Næsti leikur Grindavíkur er gegn KR í Frostaskjólinu á sunnudaginn eftir viku og hefst hann klukkan 19:15.

VF-myndir / Sölvi Logason

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024