Námskeið fyrir efnilega leikstjórnendur
„Ég var búinn að velta því lengi fyrir mér að setja á laggirnar námskeið fyrir efnilega leikstjórnendur og ákvað að kýla á það með góðum mönnum“, segir Jón Kr. Gíslason sem ásamt Fal Harðarsyni, Snorra Erni Arnaldssyni og Finni Stefánssyni ætlar að vera með leikstjórnendanámskeið fyrir 14 -18 ára drengi í Ásgarði dagana 27. -29. ágúst. Markmiðið er að auka skilning leikmanna á hlutverki leikstjórnandans og æfa ýmis atriði tengd leikstjórnendastöðunni. Frá þessu er greint á vefsíðunni karfan.is.
„Á sl. árum hafa verið haldin námskeið fyrir hávaxna leikmenn en ég held ég geti fullyrt að aldrei áður hafi verið keyrt námskeið fyrir leikstjórnendur á Íslandi. Við stefnum að því að Ásinn verði árlegur viðburður og að í framtíðinni verði enginn leikstjórnandi maður með mönnum nema hann hafi mætt oftar en einu sinni á Ásinn“, segir Jón Kr. ennfremur“.
Jón Kr. er þriðji landsleikjahæsti leikmaður Íslands frá upphafi og fyrrum landsliðsþjálfari. Honum til halds og trausts eru Falur Harðarson, sem lék yfir 100 landsleiki á sínum ferli ásamt því að leika sem atvinnumaður í Finnlandi og í háskólaboltanum í Bandaríkjunum, en hann er núverandi þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Keflavík, Snorri Örn Arnaldsson unglingalandsliðsþjálfari, yfirþjálfari yngri flokka Stjörnunnar og aðstoðarþjálfari meistaraflokks Stjörnunnar og Finnur Stefánsson yfirþjálfari yngri flokka KR.
Mynd: Falur Harðarson ætlar ásamt gamla liðsfélaga sínum Jóni Kr. Gíslasyni að miðla af reynslu sinni nú í lok ágúst.