Nágrannaslagur í kvöld
Keflavík og Njarðvík mætast í kvöld í Domino´s-deild karla í körfu. Það má því segja að körfuboltahelginni sé hleypt af stað í kvöld en um 1300 körfuboltakrakkar koma til Reykjanesbæjar á laugardaginn þar sem þeir taka þátt í einum stærsta körfuboltaviðburði ársins.
Keflavík hefur átt vinninginn þegar kemur að sigrum í nágrannarimmum liðanna og sigraði Keflavík nágranna sína úr Njarðvík í fyrri leik liðanna í vetur með naumum sigri 81-85 í Ljónagryfjunni. Njarðvík situr í 5. sæti deildarinnar með 22 stig og Keflavík er í því áttunda með 18 stig og er óhætt að segja að hvorug liðin muni gefa eftir í kvöld, en úrslitakeppnin er handan við hornið og tryggja átta efstu lið sér þátttöku í henni.
Leikurinn fer fram í TM höllinni og hefst hann kl. 19:15.