Nágrannaslagur í Grindavík
Í kvöld verður boðið upp á nágrannaslag af bestu gerð í Pepsi-deild karla í knattspyrnu en Grindavík tekur á móti nágrönnum sínum úr Keflavík og flautað verður til leiks kl. 19:15. Í síðasta leik liðanna sem fram fór þann 28. maí fór Grindavík með sigur af hólmi 2-0 og nældi í öll þrjú stigin.
Grindavík hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum í röð í deildinni og mæta því eflaust grimmir til leiks til að næla sér í stigin þrjú gegn nágrönnum sínum. Grindavík situr í áttunda sæti deildarinnar og er því nálægt botnbaráttunni eftir að hafa verið á toppnum um tíma.
Róðurinn hefur verið þungur hjá Keflavík í sumar en liðið situr í neðsta sæti deildarinnar með þrjú stig og því er alveg ljóst að Keflvíkingar mæta ákveðnir til leiks í kvöld og ætla sér að næla sér í þrjú stigin.
Veðurspáin fyrir leikinn er góð, nánast logn og engin úrkoma. Peppi mætir á völlinn og gefur snakk og drykki fyrir leik en á meðan á leiknum stendur verður hann í fullu fjöri í stúkunni og í hálfleik geta krakkar tekið þátt í leik hjá honum að hitta í gegnum göt á dúk í marki og unnið til skemmtilegra verðlauna.
Stuðningsmenn liðanna eru hvattir til þess að mæta til að styðja sitt lið til sigurs.