Karlakórinn
Karlakórinn

Íþróttir

Nafnar mætast á vígvellinum
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 23. febrúar 2024 kl. 06:00

Nafnar mætast á vígvellinum

Gunnar Már Gunnarsson er til alls líklegur í tippleik Víkurfrétta eftir að hafa unnið íþróttaálfinn Sverri Þór Sverrisson á laugardaginn 9-7. Gunnar Már hefur ekki sparað stóru orðin og segir sagan að hann sé nú þegar farinn að skoða veitingastaði í London þegar bikarúrslitaleikurinn í Englandi fer fram 24. maí.

Íslenskir tipparar hafa ekki fundið sig að undanförnu, enginn var á meðal þeirra 35 tippara sem náðu þrettán réttum, hver um sig fékk rúmar 2,5 milljónir í sinn hlut. Einungis þrír tipparar af 885 sem náðu tólf réttum voru Íslendingar og fær hver rúmar 37 þúsund krónur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Áskorandi vikunnar er Keflvíkingurinn Gunnar Oddsson, fyrrum leikmaður og þjálfari félagsins. Gunnar flutti eins árs gamall til Keflavíkur frá Ísafirði og hóf snemma að æfa og leika knattspyrnu. Nítján ára var hann byrjaður að spila með Keflavík og átti frábæran feril með liðinu, varð t.a.m. bikarmeistari 1997. Gunnar lék ekki bara með Keflavík á ferlinum, hann kíkti við í vesturbænum og lék með KR og fór svo norður á Ólafsfjörð og lék með Leiftri tvö tímabil. Gunnar heldur með Tottenham í enska boltanum og Real Madrid í þeim spænska, ástæðan er einföld.

„Ég sá þessi lið mæta Keflvíkingum í Evrópukeppni, Tottenham árið 1971 og Real Madrid ári seinna, og þ.a.l. var einfalt að velja sér uppáhaldslið í þessum deildum. Það að halda með Tottenham í enska getur reynt á þolrifin, inn á milli mjög skemmtilegir á að horfa og maður byggir upp væntingar en svo ná þeir einhvern veginn alltaf að valda manni vonbrigðum, t.d. um síðustu helgi þegar við töpuðum á heimavelli fyrir Wolves.

Ég var nokkuð virkur tippari hér áður fyrr, þegar tippstarfið fór fram í félagsheimilinu við Hringbraut. Það lognaðist einhvern veginn út af þegar það færðist þaðan. Ég hef fylgst með þessum tippleik á Víkurfréttum og hef séð umræðuna varðandi Brons-veitingastaðinn, það er kjörinn vettvangur fyrir tippið og skora ég hér með á einhvern gallharðan keflvískan félagsmann að halda utan um þetta. Ef Grindvíkingarnir geta mætt á Brons og boðið upp á tippþjónustu, hljótum við Keflvíkingar að geta það líka. Andstæðingur minn og nafni hefur heldur betur unnið gott starf í gegnum tíðina í Grindavík og er gaman að sjá hann halda sínu flotta starfi áfram á Brons vegna ástandsins heima fyrir. Ég ætla mér að heilsa upp á nafna minn á laugardaginn og þó svo að ég viti hvað hann geti sem tippari hræðist ég hann ekki fyrir fimmeyring! Það er kominn tími til að lækka í honum rostann, það má lesa úr skrifum hans að það megi í raun panta flugfarið fyrir hann á bikarúrslitaleikinn og hætta með leikinn. Ég hef aldrei mætt í kappleik öðruvísi en ætla mér sigur og það verður engin breyting á því á laugardaginn,“ sagði Gunnar Oddsson.

Gunnari Má líst vel á að mæta nafna sínum í næstu umferð. „Það verður gaman að mæta nafna. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að mæta honum inni á knattspyrnuvellinum, hann var hörku fótboltamaður. Mér er minnisstætt í leik okkar Grindvíkinga á móti Leiftri þegar nafni lét samherja minn, Þórarin Ólafsson, vita áður en hann ætlaði að „klobba hann“. Nafni stóð við stóru orðin, „klobbaði“ Þóra snilldarlega sem svaraði stórkostlega fyrir sig með þessum fleygu orðum: „Hey, það er bannað að segja!“

Annars veit ég að nafni er keppnismaður og eðlilega ætlar hann sér ekkert nema sigur gegn mér, annað væri óeðlilegt. Ég hef hins vegar nákvæmlega engar áhyggjur af honum og bíð spenntur eftir að vita hvern Víkurfréttir draga upp úr hattinum næst til að reyna hægja á mér,“ sagði hinn hógværi Gunnar Már að lokum.

Skemmtileg tilviljun að það má líta á leikinn sem einvígi tryggingarisanna Sjóvár og TM, Gunnar Már hefur verið umboðsmaður Sjóvár í Grindavík til fjölda ára og nafni hans Oddsson vinnur fyrir TM, mest í Reykjavík en líka í Reykjanesbæ.