Mun kona stöðva Gunnar Má?
Gunnar Már Gunnarsson hélt uppteknum hætti á laugardaginn og vann nafna sinn, Oddsson, 8-7. Gunnar Oddsson mun hugsanlega naga sig í handabökin, hann var með síðustu tvo leikina á seðlinum tvítryggða (1x) en báðir enduðu með útisigri. Ef hann hefði fengið annan hvorn leikinn réttan hefði hann haft sigur því hann náði fimm réttum með leikjum með einu merki en Gunnar Már bara fjórum. Frænkurnar Ef og Hefði hafa bara aldrei verið góðir liðsfélagar og Gunnar Oddsson verður að gráta sig í koddann næstu daga, er honum hér með þökkuð þátttakan.
Einn íslenskur tippari náði öllum þrettán leikjunum réttum og fær tæpar fimm milljónir. 31 Íslendingar náðu tólf réttum og eru rúmum 60 þúsund krónum ríkari.
Aftur leitum við í raðir Keflvíkinga en þar sem engum karlmanni hefur tekist að snúa á Gunnar Má, og sú staðreynd að konudagurinn var á sunnudaginn, er næsti áskorandi kvenkyns. Björg Hafsteinsdóttir er nýkjörin sem formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags en hún á glæstan íþróttaferil að baki, ekki bara í körfuknattleik heldur lék hún líka knattspyrnu með Keflavík.
„Ég spilaði báðar greinar fram til ársins 1991. Ég byrjaði á kantinum í fótboltanum en svo vantaði markmann og ég skellti mér á milli stanganna. Eftirminnilegast frá knattspyrnuferlinum er bikarúrslitaleikurinn á móti ÍA árið sem ég hætti, við skulum láta úrslit leiksins liggja á milli hluta. Ég spilaði svo körfu fram til ársins 1997 en þá varð ég ólétt svo körfuboltaskórnir fóru þá sömuleiðis upp í hillu. Ég náði nokkrum Íslands- og bikarmeistaratitlum með Keflavík, síðasti titillinn var bikarsigur árið 1997.
Ég hef alltaf fylgst með enska boltanum og Liverpool er mitt lið og hefur alltaf verið. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu tímabili, einn titill kominn í hús og mig grunar að þeir verði fleiri á þessu síðasta tímabili Jurgen Klopp. Ég hef ekki verið dugleg að tippa í gegnum tíðina og eflaust hlakkar í Gunnari Má að mæta mér. Hann er eflaust byrjaður að fagna og er væntanlega bæði búinn að plana sigurhátíð á laugardaginn og er hann ekki líka kominn með annan fótinn til London á bikarúrslitaleikinn? Hann má alveg vera sigurviss, þá er oft betra að koma aftan að andstæðingnum. Ég mun undirbúa mig vel, ég legg allt í sölurnar að velta Gunnari Má af stalli og hlakka til laugardagsins,“ sagði nýkjörinn formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags, Björg Hafsteinsdóttir.
Gunnar Már var ánægður að fá konu að tippinu
„Konudagurinn var á sunnudaginn og því eðlilegt að fá flotta konu aftur í leikinn. Björg er verðugur keppinautur, ég man mest eftir henni í körfunni en veit líka að hún reimaði knattspyrnuskóna á sig um tíma og bar líka markmannshanska. Ég man mest eftir henni árið sem kvennaliðið okkar í körfu varð Íslandsmeistari, árið 1997. Það ár virtust Keflavíkurkonur ætla sigla í gegnum allan veturinn án þess að tapa, þær voru búnar að vinna bikarmeistaratitilinn og eflaust héldu flestir að Grindavík yrði auðveld bráð fyrir þær í undanúrslitum Íslandsmótsins en Penny Peppas og mínar konur úr Grindavík mættu óhræddar og unnu rimmuna 2-0. Þær unnu síðan KR í úrslitum og tryggðu sér sinn fyrsta og ennþá, eina Íslandsmeistaratitil. Ég veit að það gleður keppinaut minn að ég rifji þetta upp, mig grunar að ég hafi komið Björgu úr jafnvægi með þessari upprifjun og geri því ekki ráð fyrir mikilli mótspyrnu frá henni á laugardaginn,“ sagði Gunnar Már að lokum.