Moye gerir það gott í Þýskalandi
Körfuknattleiksmaðurinn AJ Moye fór á kostum í Iceland Express deildinni á síðustu leiktíð með Keflvíkingum. Litríkur leikmaður og baráttujaxl út í gegn. Þegar tímabilinu lauk hér á landi var hann ekki lengi að landa samningi við lið í efstu deild í Þýskalandi. Moye leikur nú með Tuebingen í þýsku úrvalsdeildinni og er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar.
Moye er með 18,6 stig að meðaltali í leik og hefur gert alls 242 stig í 13 leikjum. Þá er Moye einnig í 7. sæti yfir flestar stoðsendingar í deildinni en hann hefur gefið alls 50 sem gerir um 3,8 stoðsendingar á leik.
Tuebingen er í 9. sæti þýsku úrvalsdeildarinnar sem er mið deildin því 18 lið leika í þýsku úrvalsdeildinni. Tuebingen hefur leikið 24 leiki, unnið 14 og tapað 10. Næsti leikur liðsins er í kvöld gegn EWE Baskets Oldenburg annað kvöld en Oldenburg er í 12. sæti deildarinnar.
Sigurði Ingimundarsyni, þjálfara Keflavíkur, varð það á orði á dögunum að fáir ef engir leikmenn sem hann hefði þjálfað eða komist í kynni við væru jafn eljusamir og kraftmiklir og AJ Moey. Á síðustu leiktíð lét Sigurður einnig þau orð falla að AJ Moye væri ekki besti leikmaðurinn sem hann hefði þjálfað en hann væri vissulega með þeim áhugasömustu.
VF-mynd/ AJ í leik gegn Skallagrím á síðustu leiktíð