Moss með 45 stig í Njarðvíkursigri
Njarðvík vann í gærkvöldi gríðarlega mikilvægan sigur er þær sigruðu Hauka 95-80 eftir framlengdan leik í Iceland Express deild kvenna í Ljónagryfjunni.
Það var jafnfræði með liðunum framan af en Haukar tóku svo völdin á vellinum þar sem Heather Ezell var að hitta gríðarlega vel utan af velli og náðu fljótt ágætis forskoti. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 19-25 og Njarðvíkurvörnin ekki nógu góð.
Helga Jónasdóttir var komin í villuvandræði í öðrum leikhluta, með þrjár villur og Haukarnir virtust hafa öll völd þegar liðin fóru inn í hálfleikinn og staðan 31-43 og áðurnefnd Heather Ezell með 3ja stiga körfu til að loka hálfleiknum.
Það var í raun fátt sem benti til þess að leikurinn yrði spennandi framan af síðari hálfleik. Forysta Hauka var enn 12 stig þegar fjórði leikhluti hófst en Heather Ezell fékk aftur á móti sína fjórðu villu þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum.
Njarðvíkurstelpur byrjuðu lokaleikhlutann betur og í stöðunni 61-69 var Ezell að sækja á körfu en setti höndina á undan sér og fékk á sig dæmda sóknarvillu og fínir dómarar leiksins, þeir Björgvin Rúnarsson og Bjarni Gaukur Þórmundsson voru vissir í sinni sök. Henning Henningsson þjálfari Hauka var ósáttur við dóminn og eftir að Unndór Sigurðsson hafði beðið um leikhlé hélt Henning áfram að rökræða við dómarana og uppskar tæknivillu. Það má segja að þarna hafi verið algjör viðsnúningur á leiknum. Shantrell Moss hitti úr báðum vítunum og skyndilega var gríðarlegt sjálfstraust komið í Njarðvíkurliðið og baráttan jókst heilmikið en á móti voru Haukastelpur ráðvilltar og hikandi í sínum aðgerðum. Njarðvíkurliðinu tókst þó ekki að koma muninum niður fyrir þessi sex stig lengi vel þrátt fyrir að fá m.a. nokkur sniðskot en Ína María Einarsdóttir minnkaði svo muninn í fjögur stig og lokamínúturnar urðu æsispennandi. Liðin fóru bæði á vítalínuna og var Moss mjög örugg á línunni meðan Haukar náðu ekki að nýta öll sín víti en það var Ólöf Helga Pálsdóttir sem minnkaði muninn í þrjú stig og náði svo að gera risakörfu þegar innan við 30 sekúndur voru eftir og var það þriggja stiga karfa og staðan 76-76. Haukar náðu ekki að skora í næstu sókn og Njarðvík fékk lokaskotið en Moss náði ekki að loka leiknum og því framlengt.
Unndór Njarðvíkurþjálfari byrjaði með Shantrell Moss á bekknum í framlengingunni, en hún var bæði með fjórar villur og eflaust orðin þreytt eftir atganginn í restina þar sem hún fór mikinn. Njarðvíkurliðið byrjaði framlenginguna sterkt þar sem Ólöf Helga og Ína María skora fyrstu fjögur stigin en Haukar svöruðu með þremur stigum á næstu mínútu. Þá hófst áhlaup heimastúlkna sem voru bæði að leika flotta vörn og jafnframt að skora grimmt úr hraðupphlaupum og voru Moss og Ólöf Helga að hirða upp lausa bolta og skila auðveldum körfum og áður en men vissu var forystan orðin 10 stig og allur þróttur úr gestunum. Njarðvíkurstelpurnar kláruðu svo af krafti með tveimur körfum og innbyrtu 15 stiga sigur sem gæti reynst mikilvægur í framhaldinu en nú hafa Valur, Snæfell, Njarðvík og Keflavík öll unnið 2 leiki og baráttan við botninn allsvakaleg á næstu vikum.
Shantrell Moss var frábær í Njarðvíkurliðinu í kvöld. 45 stig, 17 fráköst og 5 stolnir segja í raun allt sem segja þarf en Moss er gríðarlega sterk og fljót og flottur alhliða leikmaður. Hún mætti í raun fara meira á körfuna þar sem hún er erfið viðureignar.
Ólöf Helga Pálsdóttir átti dapurt kvöld framan af en kom inn seint í fjórða leikhluta og setti stórar körfur bæði í lok venjulegs leiktíma og ekki síður í framlengingunni og það er það sem stendur upp úr eftir kvöldið hjá henni. Harpa Hallgrímsdóttir og Helga Jónasdóttir voru drjúgar undir körfunum og þær Heiða Valdimarsdóttir og Ína María Einarsdóttir komu mjög sterkar inn í fjórða leikhlutanum þegar Njarðvík hóf stóra áhlaupið.
Hjá Haukum var Heather Ezell allt í öllu. Hún var að hitta frábærlega um tíma en var óheppin með villurnar og það reyndist gestunum dýrt að missa hana út þegar 7 mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Guðrún Ámundadóttir átti fína spretti og þær Telma Fjalarsdóttir og Ragna Margrét Brynjarsdóttir áttu ágætis leik í teignum. Án Ezell var sóknarleikur Hauka árangurslítill og vantaði að leikmenn tækju af skarið í lokin en Ezell hafði náttúrulega verið allt í öllu fram að fimmtu villunni.
Texti: www.karfan.is
Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson