Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mörkum rigndi í blíðunni í Keflavík
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
fimmtudaginn 2. júlí 2020 kl. 23:03

Mörkum rigndi í blíðunni í Keflavík

Keflavíkurstúlkur með stórsigur á Augnabliki í Lengjudeild kvenna

Það voru ákveðnar Keflavíkurstúlkur sem mættu til leiks á Nettóvellinum í kvöld eftir óþarfa jafntefli gegn Tindastóli í síðustu umferð. Keflavík hóf leikinn af krafti og sköpuðu stelpurnar stórhættu upp við mark Augnabliks strax í byrjun leiks. Keflavík fékk tvær hornspyrnur á fyrstu mínútunum og í þeirri seinni átti fyrirliðinn, Natasha Anasi, skalla í slá. Augnabliksstúlkur voru ekki eins heppnar á 12. mínútu þegar Aníta Lind Daníelsdóttir lét vaða utan teigs upp í samskeytin, algerlega óverjandi fyrir markmann Augnabliks og Keflavík komið yfir. Á 22. mínútu átti Paula Germino Watnick sendingu fyrir sem Dröfn Einarsdóttir skoraði úr og fimm mínútum síðar stakk Paula sér sjálf inn fyrir vörn Augnabliks og skoraði þriðja mark Keflvíkinga. Það var svo rétt undir lok fyrri hálfleiks sem maður leiksins, Aníta Lind, skoraði annað mark sitt í leiknum og fjórða mark Keflavíkur. Staðan 4:0 í hálfleik.

Fyrirliðinn Natasha Moraa Anasi skorar lokamark leiksins og innsiglar góðan leik sinn og stórsigur Keflvíkinga á Nettóvellinum í kvöld.

Seinni hálfleikur var mikið rólegri af hálfu Keflvíkinga og Augnablik fékk mikið að vera með boltann án þess þó að skapa sér nokkur færi. Keflavíkurstelpur áttu sína spretti og voru nokkrum sinnum að koma sér í hálffæri sem sköpuðu enga alvarleg hættu, ekki fyrr en á lokamínútum leiksins þegar Ísabel Jasmín Almarsdóttir sendi boltann fyrir markið og Natasha fylgdi eftir af harðfylgi og skoraði án þess að markvörðurinn gæti neitt gert annað en að horfa á eftir boltanum í netið. Lokatölur 5:0 fyrir Keflavík sem vermir toppsæti Lengjudeildarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024