Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mörk breyta leikjum
Rafael Victor fagnar seinna marki sínu í dag. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 29. júlí 2023 kl. 21:42

Mörk breyta leikjum

– sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir sterkan sigur á Grindavík

Það var gríðarlega mikilvægur leikur fór fram í dag þegar Njarðvík tók á móti Grindavík í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Hvorugt lið hefur náð að standa undir væntingum í sumar og verið í tómum vandræðum. Þetta var kannski leikurinn til að komast á beinu brautina.

Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og tóku forystuna á 7. mínútu með marki Rafael Victor eftir sendingu frá Oumar Diouck.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindvíkingar fengu vítaspyrnu á 11. mínútu eftir að skallabolti hafnaði í hönd varnarmanns Njarðvíkur, dómur sem fór illa í stuðningsmenn heimamanna. Óskar Örn Hauksson tók spyrnuna og skoraði af öryggi framhjá Robert Blakala sem átti góðan dag á milli stanganna í dag.

Leikurinn var í nokkru jafnvægi eftir að Grindavík jafnaði leikinn, mikil barátta á miðjunni og fá færi.

Eftir því sem leið á seinni hálfleik færðist aukið fjör í leikinn. Njarðvíkingar náðu betri tökum á leiknum og sóttu á gestina.

Á 67. mínútu tóku Njarðvíkingar hornspyrnu og eftir smá darraðadans náði Gísli Martin Sigurðsson skoti sem Aron Dagur Birnuson varði vel í marki Grindavíkur en Rafael Victor náði frákastinu og koma Njarðvík yfir á nýjan leik.

Grindvíkingar settu kraftinn í að jafna og Símon Logi Thasapong, þá nýkominn inn á, átti hörkuskot sem Blakala varði virkilega vel. Skömmu síðar var Óskar Örn nærri því að jafna en skot hans hafnaði í stönginni og Njarðvík því ennþá með forystuna.

Óskar Örn Hauksson með þrumustangarskot í stöðunni 2:1.

Oumar Diouck gerði út um leikinn með þriðja marki heimamanna (83') en það var liðinn dágóður tími frá síðasta marki Diouck og hann væntanlega meira en lítið sáttur við að rjúfa stífluna.

Freysteinn Ingi Guðnason kom svo inn á undir lok leiks og hann rak smiðshöggið á sigur Njarðvíkinga með fjórða markinu í uppbótartíma (90'+3).

Þrátt fyrir sigur í dag eru Njarðvíkingar áfram í næstneðsta sæti deildarinnar með ellefu stig en eftir tapið eru Grindvíkingar komnir í tíunda sæti með fimmtán.

Helgi Sigurðsson, þjálfari Grindvíkinga, þarf að byggja upp sjálfstraustið sem Grindvíkingar höfðu í byrjun tímabils til að snúa gengi liðsins við.

Grindavík fær Vestra í heimsókn í næstu viku en Njarðvíkingar leika úti geng Þrótti Reykjavík.

Jóhann Páll Kristbjörnsson, íþróttafréttaritari Víkurfrétta, tók Gunnar Heiðar tali sem var mjög ánægður eftir fyrsta sigurleikinn. Viðtalið og myndasafn úr leiknum eru neðar á síðunni.

Njarðvík - Grindavík (4:1) | Lengjudeild karla 29. júlí 2023