Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mögnuð markasúpa í Keflavík
Fimmtudagur 12. september 2013 kl. 20:01

Mögnuð markasúpa í Keflavík

Hörður Sveinsson skoraði þrennu í sigri Keflvíkinga


Þeir voru ekki sviknir sem mættu á Nettóvöllinn í dag. Keflvíkingar og Skagamenn buðu upp á sannkallaða markasúpu, og þegar uppi var staðið voru níu mörk skoruð í leiknum. Keflvíkingar skoruðu fimm á meðan gestirnir skoruðu fjögur.

Arnór Ingvi Traustason hélt áfram á sömu braut og skoraði glæsilegt mark á 5. mínútu, en í vikunni skoraði hann einnig fyrir U21 lið Íslands. Skagamenn svöruðu jafnharðan með marki og allt virðist opið á báðum endum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hörður Sveinsson kom Keflvíkingum aftur yfir og Keflvíkingar virtust sprækir í sóknarleiknum. Varnarleikurinn var að sama skapi ekki jafn beittur og aftur jöfnuðu Skagamenn. Staðan 2-2 þegar rúmlega 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Hörður Sveinsson var ekki hættur og hann skoraði aftur á 38. mínútu. Í næstu sókn fer Ómar Jóhannsson markvörður Keflvíkinga í úthlaup þar sem hann hleypur niður sóknarmann Skagamanna. Vítaspyrna var dæmd sem Jóhannes Karl skoraði úr. 3-3 þegar enn voru fimm mínútur til hálfleiks. Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik.

Áhorfendur þurftu að bíða óvenjulega lengi eftir næsta marki en þar var heitasti framherji deildarinnar, Hörður Sveinsson á ferðinni á 62. mínútu. Markið kom eftir laglegan undirbúning frá Andra Fannari varnamanni og Magnúsi Þóri bakverði.

Þegar Magnús Sverrir Þorsteinsson kemur inn á sem varamaður hjá Keflavík, þá er jafnan von á marki frá kappanum. Hann brást ekki í dag og skoraði mark sem virtist gulltruggja þrjú mikilvæg stig fyrir Keflvíkinga. Skagamenn voru á öðru máli og skoruðu þegar enn voru tvær mínutur til leiksloka. Staðan 5-4 og ennþá var tími til stefnu. Keflvíkingar héldu ró sinni og lönduðu þremur afar mikilvægum stigum í höfn.

Hörður skorar þriðja mark sitt í leiknum.

Einar Orri Einarsson vinnur einn af mörgum skallaboltum sínum í leiknum.

Magnús lék á markvörð Skagamanna og skoraði í autt markið.

Annað mark Harðar í leiknum.