Mögnuð fjórhjólaferð yfir landið
Akstursíþróttafélag Suðurnesja leggur upp í langa ævintýraferð á morgun á fjórhjólum. Upphaflega stóð til að fara horn í horn eins og það er kallað, en þá er farið frá Reykjanesvita að langanesi yfir landið þvert. Þessa stundina er það ekki mögulegt vegna þess að hálendið er ekki opið fyrir umferð og því hefur áætlunin breyst smávægilega.
Þetta er annað árið sem AíFS stendur fyrir ferð af þessu tagi og að þessu sinni ætla 8 manns að leggja af stað þessa rúmu 2200 km. sem áætlað er að fara. Þorlákur Bernharð sem er einn af ferðalöngunum sagði að ferðin hafi nú breyst í hálfgerða hringferð þar sem farið verður þvers og kruss um landið.
Fyrst verður haldið að Hólaskógi þar sem gist verður og þaðan verður farið austur á Krikjubæjarklaustur og Höfn. Næsti áningarstaður verður rétt utan við Egilsstaði og svp verður haldið að Kárahnjúkum. Því næst verður gist á Bakkafirði í 2-3 nætur og að lokum verður farið út á Font. Heimleiðis verður farið yfir Myrkholt og er áætlað að ferðin taki 10 daga.
[email protected]