Mjög sáttur með hvernig þetta fer af stað hjá okkur
-Skiptir miklu máli að vel sé mætt á leiki
Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, sendi opið bréf til stuðningsmanna fyrir leik Grindavíkur og Vals í síðustu viku. Í bréfinu biðlar hann til stuðningsmanna Grindavíkur um betri mætingu á leiki liðsins. Liðið eigi það skilið eftir góða byrjun á mótinu, en Grindavík er í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar, úrvalsdeildar karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu, um þessar mundir. Blaðamaður Víkurfrétta sló á þráðinn og heyrði í honum.
Geta stuðningsmenn átt von á fleirum svona bréfum frá þér?
„Nei ekki í þessum dúr, næst verður það kannski þakkarbréf. Ég var ánægður með stuðninginn í síðasta leik og kannski að bréfið hafi hreyft við einhverjum.“
Nú eruð þið í þriðja sæti Pepsi-deildarinnar, ertu sáttur með það?
„Ég er mjög sáttur hvernig þetta fer af stað hjá okkur. Ef mér hefði verið boðið þetta fyrir mót þá hefði ég þegið það. Staðan á leikmannahópnum er nokkuð góð, en það er eitthvað um meiðsli hjá okkur. Hópurinn er ekki mjög stór þannig að þetta hefur einhver áhrif, en það eru yngri leikmenn að stíga inn í hópinn og eru að gera góða hluti.“
Næsti leikur er við KR, hvernig er undirbúningi háttað fyrir leikinn?
„Já, næsti leikur er við KR og leggst hann vel í mig. Það er alltaf gaman að koma í Frostaskjólið. Við höfum verið að standa okkur vel á móti stóru liðunum. Undirbúningur er svipaður fyrir þennan leik eins og aðra þó það verði ávallt einhver áherslumunur eftir því við hverja við erum að spila.“
Nú er verið er að skoða ýmsar leiðir til að fjölga áhorfendum á íþróttaleiki í Grindavík. Komið hefur upp sú hugmynd að búa til eitt mánaðargjald sem væri aðgangur á alla leiki bæði í fótboltanum og körfuboltanum hjá báðum kynjum.
„Það skiptir miklu máli að vel sé mætt á alla leiki og að leikmenn finni fyrir stuðningnum inn á vellinum,“ segir Óli Stefán að lokum.