Misstu af 4. sætinu
Grindvíkingar töpuðu gegn Skallagrím í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í gær en lokatölur leiksins voru 93 – 89 Skallagrím í vil. Jeremiah Johnson, leikstjórnandi Grindvíkinga, var stigahæsti maður vallarins með 38 stig en þau dugðu ekki til. Grindavík missti þar af leiðandi af 4. sætinu í deildinni en Skallagrímur tók af þeim sætið og hefur betur í innbyrðisviðureignum. Grindavík er í 5. sæti með 26 stig, jafn mörg stig og Snæfell sem leikur gegn Þór á fimmtudag.
„Ég er sannfærður um að við vinnum KR á fimmtudag og ég býst við því að Snæfell taki Þór,“ sagði Pétur Guðmundsson, leikmaður Grindavíkur, í samtali við Víkurfréttir. „Þetta var algjör klaufaskapur af okkar hálfu að tapa leiknum í gær og við klúðruðum honum á aulalegan hátt. Það er ágætt að það gerðist núna en ekki í úrslitakeppninni,“ sagði Pétur að lokum en þetta þýðir að Grindavík missti af heimaleikjaréttinum í 1. umferð úrslitakeppninnar þar sem þeir mæta Skallagrím ef þeir halda 5. sæti.
Skallagrímur hafði undirtökin til að byrja með í leiknum og leiddu að loknum 1. leikhluta 24 – 21 en Grindvíkingar náðu forystunni er liðin gengu til leikhlés og var staðan þá 48 – 55.
Grindvíkingar voru svo sterkari aðilinn lungann úr síðari hálfleik en þegar skammt var til leiksloka höfðu Grindvíkingar 4ra stiga forskot 83 – 87 en þá skoraði Axel Kárason og fékk víti að auki og minnkaði muninn í 86 – 87. Grindavík misfórst svo að skora í næstu sókn og Skallagrímur komst yfir í fyrsta sinn í síðari hálfleik 88- 87 og það kveikti í heimamönnum sem fóru svo með 93 – 89 sigur af hólmi.
Jeremiah Johnson var með 38 stig í leiknum en næstur honum var Páll Kristinsson með 14 stig. Jovan Zdravevski gerði 32 stig í liði Skallagríms.
Tölfræði leiksins
VF-mynd/ [email protected] - Frá viðureign liðanna fyrr á tímabilinu