Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Missti áhugann á körfubolta
Valur Orri fer mjög vel af stað þetta tímabil.
Föstudagur 13. nóvember 2015 kl. 09:00

Missti áhugann á körfubolta

Valur Orri sneri við blaðinu og hefur aldrei spilað betur

Keflvíkingar fara af stað með látum í Domino´s deild karla í körfubolta og hafa enn ekki tapað leik. Leikstjórnandinn Valur Orri Valsson hefur stjórnað leik liðsins eins og herforingi. Valur var orðinn leiður á körfubolta fyrir ekki svo löngu síðan. Hann var þungur og pirraður á vellinum. Nú er allt annað að sjá til þessa efnilega leikmanns sem hefur aldrei spilað betur og er í sínu besta formi.

Keflvíkingar eru taplausir eftir fimm umferðir þrátt fyrir að þeim hafi ekki verið spáð góðu gengi af svokölluðum sérfræðingum. Í Keflavík hafa slíkar spár litla þýðingu og eflaust eru þær bensín á bálið frekar en hitt. Ein af helstu ástæðunum fyrir velgengni Keflvíkinga þetta tímabilið er hinn 21 árs leikstjórnandi Valur Orri Valsson. Hann er að spila betur en nokkru sinni fyrr og virkar léttari á fæti sem og í lundu. Valur kom til Keflavíkur árið 2011 en hann var aðeins 14 ára árið 2009 þegar hann steig sín fyrstu skref í úrvalsdeild með Njarðvíkingum. Hann spilar nú eins og reynslubolti þrátt fyrir að vera rétt kominn með aldur til þess að fara í Ríkið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leið ekki vel

„Ég ákvað að koma að mér í almennilegt form. Maður verður bara sjálfkrafa betri við það. Ég lenti í smá meiðslum í baki sem ekki margir vita af. Svo þyngdist ég og missti eiginlega áhugann á körfubolta í smá tíma, mér leið bara ekkert vel,“ segir Valur einlægur en sú var staðan síðustu tvö tímabil hjá leikstjórnandanum. „Þetta var mikill pirringur í mér sem ég fór að átta mig á að væri bara kjaftæði og að ég þyrfti að rífa mig í gang.“



Valur mætti samviskusamlega í ræktina í sumar eftir erfiða tíma innan og utan körfuboltavallarins. „Áhuginn var bara ekki til staðar. Mér fannst bara allt ömurlegt og leiðinlegt einhvern veginn þannig að ég var ekkert að láta sjá mig í ræktinni eða hugsa um mataræðið.“ Hann fór ekki á neinn sérstakan matarkúr. Heldur fór hann að hugsa um hvað hann var að láta ofan í sig og minnka skammtana. Valur telur að hann sé líklega 7-8 kílóum léttari en á tímabilinu 2013-14 þegar hann var sem þyngstur.

„Fyrst og fremst þarf maður að vilja þetta sjálfur. Þetta var nefnilega alltaf í boði. Maður þarf bara að gera þetta. Þetta er allt annað og það er helvíti gaman að vera kominn í fínt stand. Maður heldur alltaf að þetta geti ekki gerst.“

Þroskast með aukinni ábyrgð

Valur var gerður af varafyrirliða hjá Keflavík fyrir tímabilið og hefur fengið stærra hlutverk hjá liðinu. „Bæði Siggi (Ingimundar) og Einar (Einars) eru að segja mér að ég sé aðalmaðurinn inn á vellinum og eigi að sjá um hlutina þar. Þegar við erum að spila svona vel saman þá þarf maður þess ekkert. Bara að sjá til þess að við séum að gera þetta saman sem lið.“

Valur lítur á nafnbótina sem mikið hrós og segist finna aukna ábyrgð sem henni fylgir þrátt fyrir að hann sé ekki að velta því of mikið fyrir sér. Valur hefur verið að breyta leik sínum undanfarin ár úr því að vera mikill skorari yfir í að vera sá sem leitar félagana uppi og stjórnar spilinu „Mér finnst ég hafa þroskast sem leikmaður og vera betri núna en ég var fyrir nokkrum árum,“ segir hann. Skotin eru þó að rata rétta leið og Valur hefur aldrei skorað meira en í ár þar sem hann er með tæp 15 stig að meðaltali. Valur skorar að jafnaði 2,6 þrista í leik og hefur þriggja stiga nýtingin aldrei verið betri hjá pilti, eða rúmlega 56%.

„Þetta hefur verið að falla hjá mér. Ég held að það hafi komið eftir að ég fór að skjóta mikið í sumar. Ég er búinn að finna betri takt í skotinu mínu. Ætli það sé ekki formið líka.“

„Ég lenti í smá meiðslum í baki sem ekki margir vita af. Svo þyngdist ég og missti eiginlega áhugann á körfubolta í smá tíma, mér leið bara ekkert vel“


Næstu leikir Keflvíkinga eru gegn Grindavík, KR og Tindastóli. Grannaslagurinn gegn Grindavík er í kvöld gegn Grindavík. „Ég held að næstu leikir séu áskorun fyrir okkur um hvort við getum verið að berjast um titilinn. Ég veit að við getum verið í topp fjórum því við erum með það gott lið. Þannig að þetta er ákveðin prófraun fyrir okkur og það verður gaman að sjá hvar við stöndum í samanburði við þessi lið,“ segir Valur að lokum.