Missir Falur af leiknum á morgun?
Falur Harðarson, leikmaður og annar þjálfara Keflavíkur, er tæpur fyrir leikinn mikilvæga gegn CAB Madeira annað kvöld. Hann hefur strítt við hnémeiðsli lengi og lét nýverið tappa talsverðu magni af vökva úr öðru hnénu. Talið var að hann hefði náð sér að fullu eftir það, en eftir leikinn í gær fór hnéð að bólgna upp og Falur gat ekki æft með strákunum í dag.
Samkvæmt heimasíðu Keflavíkur er allt útlit fyrir að Falur leiki ekki á morgun og þýðir það að Keflavík verður án tveggja reynslumestu leikstjórnenda sinna, þar sem Hjörtur Harðarson hefur ekki leikið síðan hann viðbeinsbrotnaði í úrslitaleik Hópbílabikarsins á dögunum. Það þýðir að ungu strákarnir, þ.e. Arnar Freyr og Davíð, auk Sverris Þórs, þurfa að taka á sig meiri ábyrgð. Arnar Freyr átti góðan leik í gær þar sem hann skoraði 12 stig í síðasta leikhluta, og er vonandi að hann sýni meira af slíku á morgun ef svo fer að Falur verði ekki leikfær.
Annars berast þær fréttir frá Portúgal að Ovarense séu ánægðir með sigurinn í gær og Rodrigues þjálfari þeirra sagði herbragð sitt hafa gengið upp. Þeir hafi náð að stoppa skytturnar og þannig hafi stóru mennirnir þeirra yfirspilað Keflvíkingana.
Leikurinn gegn Madeira á morgun hefst klukkan 20.30 að íslenskum tíma og verður lýst beint á vef Keflavíkur og hægt verður að fylgjast með honum á vf.is.