Misjöfn uppskera fyrir norðan
Keflvíkingar gerðu góða ferð til Húsavíkur
Keflavíkurstúlkur léku gegn Völsungi á Húsavík í dag í Lengjudeild kvenna í knattspyrnu og sóttu öll stigin þangað. Það var þó ekki fyrr en undir lok fyrri hálfleiks sem Keflvíkingar brutu loks á bak aftur vörn Völsunga og tóku forystu í leiknum, þar var að verki Dröfn Einarsdóttir.
Natasha Anasi, fyrirliði Keflavíkur, bætti um betur strax í byrjun seinni hálfleiks og tvöfaldaði forystuna. Á 77. mínútu kom Amelía Rún Fjeldsted boltanum í net Völsungs og staðan orðin 3:0. Það var svo rétt fyrir leikslok sem Natasha skoraði annað mark sitt og fjórða mark Keflavíkur. Lokatölur 4:0 fyrir Keflavík.
Grindavíkurstelpur töpuðu á Akureyri
Grindvíkingar byrjuðu ágætlega í leiknum gegn Hömrunum á Þórsvelli og komust yfir þegar Birgitta Hallgrímsdóttir skoraði úr víti (7'). Hamrarnir svöruðu fyrir sig á 12. mínútu og enn versnaði staðan á þeirri 20. þegar Birgitta var rekin af velli með beint rautt spjald. Staðan var jöfn í hálfleik og á brattan að sækja fyrir Grindavík.
Einum færri leit út fyrir að þær grindvísku ætluðu halda þetta út og ná jafntefli en í blálokin opnaðist markið og Hamrarnir náðu að knýja fram sigur. Svekkjandi tap í fyrsta leik Íslandsmótsins í 2. deild staðreynd.