Minningarmót til styrktar fjölskyldu
– Steinars Ingimundarsonar
Laugardaginn 22. febrúar n.k. frá kl. 15.30 til 18.00, ætla um 140 fullþroskaðir knattspyrnukappar að koma saman í Reykjaneshöllinni í Reykjanesbæ. Tilgangurinn með þessu mannamóti er að safna fé fyrir gott málefni, um leið og gamlir knattspyrnukappar munu rifja upp gamla takta og gera tilraun til að töfra fram listir sínar á knattspyrnuvellinum. Þetta verður í tíunda sinn sem komið er saman af þessu tilefni til að minnast Ragnars Margeirssonar fyrrverandi knattspyrnusnillings, en hann lést langt fyrir aldur fram í febrúar á árinu 2002.
Meðal þátttakenda í mótinu verða framkvæmdastjórar, bankamenn, ritstjórar, skipstjórar, fyrrverandi þingmenn og auk þess nokkrir af bestu leikmönnum íslenskrar knattspyrnusögu.
Aðstandendur viðburðarins sem kalla sig „vinir Ragga Margeirs“ hafa tekið upp þann sið að safna fé og láta afraksturinn ganga til styrktar fjölskyldum knattspyrnumanna sem fallið hafa frá fyrir aldur fram. Að þessu sinni mun afrakstur mótsins ganga til styrktar fjölskyldu Steinars Ingimundarsonar sem lést á síðasta ári.
Þeir sem vilja láta fé af hendi rakna af þessu tilefni geta gert það með því að leggja inná reikning nr. 121-05-10026, kt. 180161-4229.
Vinir Ragga Margeirs bjóða öllum að koma við í Reykjaneshöllinni á laugardaginn og fylgjast með þessum fyrrverandi snillingum leika listir sínar og eiga saman góða stund í minningu góðra drengja.